Skoðun

Af­hendingar­öryggi heits vatns

Ó. Ingi Tómasson skrifar

Í yfirstandandi kuldakasti flagga Veitur viðvörun um hugsanlegan skort á heitu vatni og væntanlegri lokun sundlauga. Á undanförnum árum hafa Veitur og fleiri aðilar bent á að hitaveitur víða um land séu komnar að þolmörkum og að á höfuðborgarsvæðinu er spáð að hitaveitueftirspurn gæti tvöfaldast á næstu 40 árum. Einnig má geta þess að afhendingaröryggi heits vatns getur rofnað af öðrum orsökum t.d. vegna náttúruhamfara en stutt er síðan umræða um slíkt var vegna eldgoss á Reykjanesskaga.

Krýsuvík

Í febrúar 2021 skrifaði ég grein í Fréttablaðið „Þegar innviðir hitaveitunnar rofna – í kuldakasti“ Í þessu samhengi þurfum við að líta til fleiri staða en nú er til öflunar á heitu vatni, nærtækast er að horfa til háhitasvæðisins í Krýsuvík. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkti þann 27. sept. sl. viljayfirlýsingu Hafnarfjarðarbæjar og HS Orku „Um samstarf um rannsóknir og nýtingu ferskvatns og jarðhita í Krýsuvík“ sem m.a. fellst í að vinna áfram að hugmyndum um nýtingu auðlinda á svæðinu, öflunar jarðhita og ferskvatns. Umhverfis- og framkvæmdaráð tók málið fyrir í morgun (14.12.) þar sem var m.a. bókað: „Umhverfis- og framkvæmdaráð vekur athygli á að Krýsuvík sé kostur til virkjunar, með því væri komin tenging við kerfi Veitna sem dregur úr álagi á virkjunum á Hellisheiði og Nesjavöllum. Því er enn meiri ástæða til að flýta rannsóknum til nýtingar á jarðvarma á því svæði. Með nýtingu jarðvarma í Krýsuvík væru komin tvö samtengd kerfi sem gætu aukið öryggi og fyrirsjáanleika afhendingaröryggis á heitu vatni inn á höfuðborgarsvæðið“. Læt ég lokaorð greinar minnar frá því febrúar 2021 verða lokaorðin hér: „heita vatnið er ekki óþrjótandi auðlind sem endurnýjar sig eftir því sem á hana er gengið, því þarf að dreifa álaginu og huga að öðrum svæðum þar sem þessa auðlind er að finna“.

Höfundur situr í umhverfis- og framkvæmdaráði Hafnarfjarðar.




Skoðun

Sjá meira


×