Enski boltinn

Jordan kaupir hlut í ensku úr­vals­deildar­liði

Valur Páll Eiríksson skrifar
Jordan er mikill íþróttaáhugamaður og hefur nú fest kaup á hluta í Bournemouth.
Jordan er mikill íþróttaáhugamaður og hefur nú fest kaup á hluta í Bournemouth. Paras Griffin/Getty Images for Metro-Goldwyn-Mayer Studios Inc

Hollywood-leikarinn Michael B. Jordan er nýr hluteigandi enska úrvalsdeildarliðsins Bournemouth. Félagið tilkynnti um fjárfestingu Jordans í dag.

Jordan spratt upp á stjörnuhiminn árið 2015 þegar hann fór með hlutverk Adonis Creed í samnefndri kvikmynd, Creed. Hann lék þar son Apollo Creed, fyrrum andstæðing og félaga Rocky Balboa úr Rocky-kvikmyndaseríu Sylverster Stallone. Stallone lék gegn Jordan sem Rocky í myndinni, en Creed II kom út árið 2018 og þriðja myndin í seríunni kemur út á næsta ári þar sem Jordan mun þreyta frumraun sína í leikstjórastólnum.

Hann er einnig þekktur fyrir hlutverk sitt sem Erik Killmonger í Black Panther kvikmyndunum og þá átti hann hlutverk í HBO-seríunni The Wire í æsku.

Bournemouth tilkynnti í dag að Jordan væri nýr hluthafi í félaginu en liðið er nýliði í ensku úrvalsdeildinni. Bournemouth situr þar í 14. sæti, þremur stigum frá fallsæti. Liðið tapaði 9-0 fyrir Liverpool snemma í mótinu og var Scott Parker, sem kom liðinu upp, rekinn úr stjórastólnum.

Gary O'Neil tók við liðinu af Parker og hefur tekist að snúa gengi liðsins við, þó það sé enn í fallbaráttu. Liðið mætir Chelsea í fyrsta leik eftir HM-pásu, þann 27. desember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×