Í verðkönnun ASÍ var kannað verð á 137 matvörum í Bónus, Krónunni, Nettó, Iceland, Fjarðarkaupum, Kjörbúðinni, Heimkaupum og Hagkaupum.
Bónus var með lægsta verðið í 83 tilvikum en í mörgum tilfellum var þó einungis einnar krónu munur á verði milli Bónuss og Krónunnar.
Heimkaup var oftast með hæsta verðið, eða í 51 tilviki af 137.
Algengast var að undir 20 prósent munur væri á hæsta og lægsta verði á matvöru eða í 40 prósent tilfella.
Í 35 prósent tilfella var 20-40 prósent munur á hæsta og lægsta verði og í 25 prósent tilfella var yfir 40 prósent munur.
Mikill munur á hæsta og lægsta kg verði á kjöti
Oft var mikill munur á hæsta og lægsta kg verði á kjöti. Sem dæmi má nefna 42 prósent eða 711 kr. mun á hæsta og lægsta kg verði af vinsælasta jólamat Íslendinga, hamborgarhrygg.
Lægsta verð á hamborgarhrygg m. beini, óháð vörumerki, var í Bónus, 1.679 kr. en það hæsta í Heimkaup, 2.390 kr. Verð á ódýrasta hamborgarhryggnum í Krónunni var þó einungis einni krónu hærra en í Bónus.
Þá var 36 prósent eða 600 kr. munur á kg verði á heilum frystum kalkún en miðað við fimm kg kalkún gerir það 3.015 kr. verðmun. Lægsta verðið var í Nettó, 1.696 kr. en hæsta verðið í Heimkaup, 2.299 kr.
Þá var 24 prósent eða 1.109 kr. munur á hæsta og lægsta kg verði á úrbeinuðu Kea hangilæri. Lægst var verðið í Heimkaup, 4.590 kr. en hæst í Hagkaup, 5.699 kr.