Fótbolti

Þrír þjálfarar sem töpuðu fyrir Marokkó á HM hafa misst starfið sitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fernando Santos gengur niðurlútur á grasinu eftir tapið fyrir Marokkó í átta liða úrslitum á HM í Katar.
Fernando Santos gengur niðurlútur á grasinu eftir tapið fyrir Marokkó í átta liða úrslitum á HM í Katar. AP/Ricardo Mazalan

Marokkóbúar komust fyrstir Afríkuþjóða í undanúrslitin á heimsmeistaramótinu í fótbolta en þrír landsliðsþjálfarar sem duttu út fyrir þeim á leiðinni þangað héldu ekki starfinu sínu.

Marokkó vann 1-0 sigur á Portúgal í átta liða úrslitunum.

Portúgalar ákváðu í gær að segja Fernando Santos upp störfum eftir átta ára starf sem landsliðsþjálfari. Hinn 68 ára gamli Santos tók við liðinu 2014 og gerði Portúgal að Evrópumeisturum í Frakklandi 2016.

Marokkó vann sigur á Spánverjum í vítakeppni í sextán liða úrslitunum eftir að liðin gerðu markalaust jafntefli.

Luis Enrique ákvað að segja starfinu sínu lausu sem landsliðsþjálfari Spánverja strax eftir mótið. Hinn 52 ára gamli Spánverji var búinn að þjálfa spænska liðið frá 2019.

Marokkó vann 2-0 sigur á Belgíu í riðlakeppninni sem varð á endanum til þess að belgíska liðið sat eftir í riðlinum.

Roberto Martínez hætti sem landsliðsþjálfari Belga strax eftir síðasta leik liðsins í riðlakeppninni þar sem liðið gerði markalaust jafntefli við Króata.

Hinn 49 ára gamli Martínez var búinn að þjálfa belgíska liðið frá 2016.

Það var þó einn þjálfari sem virðist ætla að lifa af tap á móti Marokkó á þessu heimsmeistaramóti en það John Herdman, þjálfari kanadíska landsliðsins.

Kanadamenn voru á sínu fyrsta heimsmeistaramóti frá 1986 en töpuðu öllum leikjum sínum í riðlinum þar af lokaleiknum 2-1 á móti Marokkó.

Alls hafa níu landsliðsþjálfarar misst starfið sitt eftir HM en listann má sjá hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×