Innlent

Í­búar Fjarða­byggðar lang­tekju­hæstir

Árni Sæberg skrifar
Íbúar Neskaupstaðar eru meðal þeirra tekjuhæstu á landinu.
Íbúar Neskaupstaðar eru meðal þeirra tekjuhæstu á landinu. Vísir/Vilhelm

Íbúar Fjarðabyggðar voru með 5,1 milljón króna á mann í atvinnutekjur árið 2021. Þeir tróna á toppi lista Byggðastofnunar yfir atvinnutekjur eftir sveitarfélögum.

Í pistli á vef Byggðastofnunar segir að hún hafi undanfarin ár fengið gögn frá Hagstofu Íslands um atvinnutekjur eftir atvinnugreinum og svæðum til þess að sjá hvaða atvinnugreinar standa undir tekjum íbúa eftir landssvæðum og greina breytingar sem verða þar á.

Þar segir að heildaratvinnutekjur hafi numið 1.462 milljörðum króna á árinu 2021. Það er fimm prósent hækkun frá árinu áður, sem markað var af heimsfaraldri kórónuveirunnar.

Skutu Garðbæingum ref fyrir rass

Atvinnutekjur á hvern íbúa voru langhæstar á Fjarðabyggð. Íbúar Fjarðarbyggðar, með sína 5,1 milljón á ári tóku fram úr Garðbæingum sem trónað höfðu á toppnum í tvö ár. Garðbæingar voru með 4,8 milljónir króna í árstekjur í fyrra og Seltirningar 4,7 milljónir.

Karlar með 35 prósent hærri tekjur

Byggðastofnun flokkar atvinnutekjur einnig eftir kynjum. Á vef stofnunarinnar segir að atvinnutekjur kvenna hafi verið 603 milljarðar króna á síðasta ári, eða 41,3 prósent heildartekna.

Karlar voru aftur á móti með 858 milljarða króna í atvinnutekjur eða 58,7 prósent heildartekna.

Það gerir 3,36 milljónir króna á ári á hverja konu og 4,54 milljónir króna á hvern karl að 35 prósent hærra.

Skýrslu Byggðastofnunar má lesa hér og mælaborð má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×