Haukar greina frá þessu á samfélagsmiðlum sínum en Sara gekk í raðir þýska félagsins Sachsen Zwickau fyrir komandi tímabil. Sú dvöl var í styttri kantinum og er Sara á leið aftur í Hauka eftir að hafa leikið með liðinu í þrjú ár áður en hún hélt til Þýskalands. Var hún meðal annars markahæsti leikmaður Hauka á síðustu leiktíð með 108 mörk í 21 leik.
Reikna má með að skiptin gangi í gegn þegar félagaskiptaglugginn opnar í byrjun nýs árs. Sara gæti því verið með þegar Haukar taka á móti Íslandsmeisturum Fram þann 7. janúar næstkomandi.
Haukar eru í 5. sæti Olís deildarinnar með 8 stig að loknum 10 leikjum.