Innlent

Gjaldskrá Lyfjastofnunar hækkar um 10,6 prósent

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hækkunin nær bæði til lyfja og lækningatækja.
Hækkunin nær bæði til lyfja og lækningatækja. Vísir/Vilhelm

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið gjaldskrá Lyfjastofnunar 2023 sem hækkar að meðaltali um 10,6 prósent miðað við síðasta ár. Breytingin mun taka gildi 1. mars næstkomandi.

Hækkunin nær bæði til lyfja fyrir menn og til lækningatækja.

Frá þessu er greint á vef Lyfjastofnunar.

Þar er fjallað um ákvörðun sem Lyfjastofnun tók 20. maí í fyrra um breytingu á smásöluálagningu lyfseðilsskyldra lyfja. Ákvörðunin var þríþætt og fól meðal annars í sér að verðþrepum og smásöluálagningu var breytt 1. júlí sama ár.

Þá var ákveðið að greiða sérstakt þjónustugjald til lyfjaverslana, 120 krónur, fyrir afgreiðslu ódýrasta lyfs og innan við 5 prósent frá ódýrasta verði í viðkomandi viðmiðunarflokki. Þessi ákvörðun tók gildi 1. janúar síðastliðinn.

Lyfjastofnun ákvað einnig að 1. mars 2023 myndi smásöluálagning ávísunarskyldra lyfja hækka sem samsvaraði verðlagsforsendum fjárlaga 2023. Það er á þeim forsendum sem heilbrigðisráðherra hefur ákveðið hina 10,6 prósent hækkun.

„Tilkynnt verður innan nokkurra vikna hvernig hækkun smásöluálagningarinnar mun dreifast á verðbil smásöluálagningar,“ segir á vef stofnunarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×