Paulo Dybala var maðurinn á bakvið sigur Roma gegn Fiorentina í dag. Hann skoraði bæði mörkin í 2-0 sigri og Roma er í sjöunda sæti deildarinnar, aðeins fjórum stigum á eftir Milan sem er í öðru sæti.
Leikurinn fór ekki vel af stað fyrir gestina frá Flórens í dag. Dodo var kominn með tvö gul spjöld eftir aðeins tuttugu og fjórar mínútur og gestirnir því einum færri.
Dybala skoraði fyrra mark sitt á 40.mínútu eftir sendingu frá Tammy Abraham og hann bæði öðru marki við þegar skammt var eftir, aftur eftir sendingu Abraham.
PSG missteig sig
Í Frakklandi var stórlið PSG í heimsókn hjá Rennes. Rennes var í fjórða sæti deildarinnar fyrir leikinn og því alls ekki um auðveldan leik að ræða fyrir toppliðið.
Lionel Messi og Neymar voru báðir í byrjunarliði Parísarliðsins sem var máttlaust í leiknum og ógnaði marki Rennes sjaldan. Eina mark leiksins kom á 65.mínútu þegar Hamari Traore skoraði eftir sendingu frá Adrien Truffert.
PSG er nú aðeins með þriggja stiga forskot á toppnum en Lens, sem vann 1-0 sigur á Auxerre í gær, er í öðru sætinu.