Þetta er sjötti samningurinn sem undirritaður er um samræmda móttöku flóttafólks á skömmum tíma. Auk Hafnarfjarðarbæjar hafa Akureyri, Árborg, Hornafjörður, Reykjanesbær og Reykjavíkurborg undirritað samninga við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.
Í tilkynningu á vef ráðuneytisins segir að markmiðið með samræmdri móttöku flóttafólks sé að tryggja flóttafólki samfellda og jafna þjónustu óháð því hvaðan það kemur og í hvaða sveitarfélagi það sest að. Lögð sé áhersla á nauðsynlega aðstoð til að vinna úr áföllum og að fólk fái tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, svo sem með atvinnu, samfélagsfræðslu og námi, þ.m.t. íslenskunámi.
Fagleg móttaka kalli á virkt samtal og samvinnu allra hlutaðeigandi aðila. Hafnarfjarðarbær er eitt þeirra sveitarfélaga sem samþykkti þátttöku í tilraunaverkefni um samræmda móttöku árið 2020 og býr að dýrmætri reynslu og þekkingu í málaflokki flóttafólks.
„Það er gleðiefni að Hafnarfjarðarbær hafi undirritað nýjan samning um samræmda móttöku flóttafólks, enda er mikilvæg og kærkomin þekking til staðar í bæjarfélaginu varðandi móttöku flóttafólks. Ég óska Hafnfirðingum einlæglega til hamingju,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
„Reynslan við móttöku flóttafólks sýnir að þjónustuþörf og stuðningsþörf er mjög mikil fyrstu dagana og vikurnar meðan fólk er að fóta sig á ókunnum slóðum og ákveða hvar það vill festa rætur til framtíðar. Þetta hefur kallað á mikla og sérhæfða þjónustu fagfólks, eflingu innviða og sértæka þjónustu á ýmsum sviðum og því mikilvægt skref að fjármögnun þjónustunnar sé tryggð með þessum samningi,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri í Hafnarfirði.