Heimildin greinir frá þessu og segir veðmálafyrirtækið Pinnacle hafa skilað gögnum til Knattspyrnusambands Íslands vegna þessa. Leikmaðurinn sem um ræðir er Sigurður Gísli Bond Snorrason sem spilaði 21 leik með Aftureldingu í deild og bikar sumarið 2022.
Ljóst er að um klárt brot á regluverki KSÍ er að ræða. Í lögum sambandsins segir að leikmönnum sé óheimilt að taka þátt í veðmálastarfsemi, með beinum eða óbeinum hætti, í tengslum við eigin leiki og eigin mót. Bann þetta tekur einnig til miðlunar upplýsinga í þeim tilgangi að hafa áhrif á veðmál og fela í sér fjárhagslegan ávinning.
Þá segir í Staðalsamningi KSÍ, sem Heimildin segir Sigurð Gísla hafa undirritað við Aftureldingu, að leikmanni sé óheimilt að taka þátt í eða stunda veðmál, beint eða óbeint, sem tengjast knattspyrnuleik samningsfélags og/eða knattspyrnuleik aðildarfélags KSÍ.
Vísað er í greinargerð Klöru Bjartmarz, framkvæmdastjóra KSÍ, til aga- og úrskurðarnefndar að Sigurður Gísli hafi í fimm skipti veðjað á úrslit hjá leik hjá Aftureldingu og hann spilaði í fjórum þeirra. Hann hafi aldrei veðjað gegn eigin liði og viðkomandi leikur hafi verið hluti af pakkaveðmáli, knippi leikja.
Málið er á borði aga- og úrskurðarnefndar KSÍ.