Fótbolti

Luis Suarez með þrennu í fyrsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luis Suarez var sáttur með þrennu í fyrsta leik með Gremio liðinu.
Luis Suarez var sáttur með þrennu í fyrsta leik með Gremio liðinu. AP/Wesley Santos

Luis Suarez var fljótur að minna á sig í fyrsta leik sínum með brasilíska félaginu Gremio.

Úrú­gvæinn þreytti frumraun sína í gær og skoraði þrennu á aðeins 38 mínútum í 4-1 sigri Gremio á Sao Luiz en með því tryggði liðið sér sigur í Recopa Gaucha ofurbikarnum.

Hinn 35 ára gamli fyrrum leikmaður Liverpool og Barcelona gekk frá samningum við brasilíska félagið eftir heimsmeistaramótið í Katar.

Hann hafði spilað í nokkra mánuði með æskufélagi sínu Nacional og hjálpað því að verða meistarar í Úrúgvæ en ákvað að leita á nýjar slóðir og skrifa undir tveggja ára samning við Gremio.

Gremio hefur aðsetur í suður Brasilíu og er ekki langt frá landamærunum við Úrúgvæ.

Suarez skoraði meðal annars með laglegri vippu yfir markvörðinn og svo annað mark með viðstöðulausu skoti. „Ég held að þetta sé besta frumraun mín með félagi en síðast skoraði ég í fyrsta leik með Atletico Madrid,“ sagði Luis Suarez við Sportv eftir leik.

Suarez skoraði öll mörkin sín í fyrri hálfleiknum og fór af velli þegar aðeins fjórtán mínútur voru liðnar af þeim síðar.

„Hann gæti ekki hafa byrjað betur. Stuðningsmennirnir trúa á hann og það gerum við líka. Hann sýndi okkur af hverju hann er kominn hingað. Hann komst líka fljótt inn í hópinn af því að hann er mjög jarðbundinn einstaklingur. Hann vill bara vera eins og allir hinir,“ sagði Renato, þjálfari Gremio.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×