Í fréttum Stöðvar 2 var litið inn í skemmu í eigu Faxaflóahafna í Korngörðum í Sundahöfn. Þar vinnur Breiðfirðingurinn Hafliði Már Aðalsteinsson við þriðja mann við að gera upp gamla trébáta. En núna eru þeir að smíða fornbát, svokallaðan áttæring, sem menn réru á fyrir tíma vélbátanna.
„Þú verður að athuga það að þessir bátar eru grundvöllur að útgerð nútímans. Afar þeirra sem gera út núna gerðu út svona báta. Þetta er bara hluti af menningunni okkar og sögunni okkar,“ segir Hafliði.

Þessi verður ellefu metra langur, á stærð við teinæring en samt áttæringur, smíðaður eftir teikningu úr Íslenskum sjávarháttum. Áhugamenn í Grindavík undir forystu Ólafs Sigurðssonar skipstjóra ásamt Sjómannafélaginu í Grindavík standa fyrir smíðinni.
„Það var enginn svona til. Það var búið að henda þeim öllum. Við erum duglegir að brenna þetta á gamlárskvöld.
Áttæringar voru ekkert margir. En svo voru sexæringar, það voru bátar sem þeir notuðu mest í sjóróðrana. Áttæringana í hákarlalegurnar og svoleiðis eitthvað stærra, og svo í flutninga.
En fiskimenn, eins og þeir voru undir Jökli, þeir réðu ekkert við stærri báta en sexæringa. Það þurfti að draga þetta upp alltaf undan sjó. Það voru engar hafnir.
Svona stórir bátar voru yfirleitt ekki notaðir til fiskjar, ekki í Breiðafirðinum allavega. En þeir notuðu stóra báta hérna austur á söndum. Þar voru þeir með stóra báta.“

Hafliði er sjöundi ættliður bátasmiða, lærði skipasmíðar af föður sínum í Hvallátrum á Breiðafirði, og þar smíðuðu menn síðast svona bát árið 1904 eða 1906. Þó ekki úr íslenskum við.
„Forfeður okkar notuðu rekavið í þetta. Núna er hann hættur að koma. Þá notum við íslenskt.“
Þannig eru böndin og kjölurinn úr sunnlenskum skógi, íslenskt greni úr Þjórsárdal.
„Þetta eru máttarviðirnir. Eins og kjölurinn, rúmlega sjö metra langur. Þannig að það eru orðin sæmileg tré til.“
-Þannig að það er hægt að treysta íslenskum skógum fyrir bátum?
„Já, já, já. Við getum gert það,“ svarar skipasmíðameistarinn.
Finnsk fura fer þó í byrðinginn en möstrin tvö eru íslenskt lerki.

En hafa menn áður smíðað bát úr íslenskum skógarviði?
„Ekki svo að ég viti.“
-Heldurðu að landnámsmenn hafi gert það?
„Jaa.. Hvernig voru skógarnir hérna þá? Voru þeir háir? Eins og það sem við þekkjum af þessu er óttalegt kjarr og hefur varla verið mikið nothæft í smíðar, - ekki í báta. En við vitum að fjörurnar voru fullar af við, væntanlega frá Síberíu.“
-En hvenær á svo að sjósetja?
„Sjómannadaginn.“
-Við hátíðlega athöfn í Grindavík?
„Það geri ég ráð fyrir, já. Það er þeirra hlutur. Ég ætla bara að vera við,“ svarar Hafliði Már Aðalsteinsson, bátasmiður úr Hvallátrum á Breiðafirði.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: