RÚV greinir frá.
Það var þann 1. júlí í fyrra sem risastór hoppukastali, sem komið hafði verið fyrir við Skautahöllina á Akureyri, tókst á loft. 63 börn voru inni í kastalanum þegar atvikið varð.
Fimmmenningarnir eru sagðir hafa borið ábyrgð á öryggi barnanna sem voru að leik í hoppukastalanum með einum eða öðrum hætti. RÚV greinir frá því að saksóknari hafi höfðað málið vegna fjögurra barna sem slösuðust. Tvö börn handleggsbrotnuðu og eitt barn hlaut brot á herðablaði í slysinu.
Eitt barnanna, Klara, slasaðist alvarlega. Hún varð fyrir miklum heilaáverka sem gerði það að verkum að hún þarf að læra flest, ef ekki allt, upp á nýtt.
Saksóknari hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra hefur verið með málið til meðferðar síðustu mánuði. Ákærusvið lögreglunnar hefur nú talið tilefni til að gefa út ákæru.
Að sögn RÚV segir í ákærunni að jarðfestingar hafi verið allt of fáar til að halda svo stórum kastala tryggilega. Ekki hafi verið fylgst nægilega vel með festingum og einingar sem fastar voru saman, hafi aðeins verið festar með frönskum rennilás og spottum.
Hoppukastalinn var á vegum Perlunnar og hafði verið tímabundið fluttur norður í land. Gunnar Gunnarsson forstjóri Perlunnar sagðist í samtali við fréttastofu vera gjörsamlega miður sín vegna atviksins í 1. júlí 2021. Þá sagði hann alveg kýrskýrt að ef vindur færi yfir 10 metra á sekúndu væri kastalinn ekki blásinn upp. Festingar kastalans ættu þó að ráða við miklu meira en slíkan vindhraða.
Daginn sem slysið bar að voru um sex til ellefu metrar á sekúndu á Akureyri, samkvæmt veðurathugunum Veðurstofunnar.
Aðspurður hver hafi borið ábyrgð á vettvangi, tekið ákvörðun um hvort loka eigi vegna vinds, vildi Gunnar þá hvorki benda á einn né neinn: „Þetta er mín ákvörðun „at the end of the day,“ sagði Gunnar. „Ég ber ábyrgð á því sem er að gerast þarna.“