Fótbolti

Pedri jók for­ystu Börsunga á toppnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Barcelona fagna sigurmarki dagsins.
Leikmenn Barcelona fagna sigurmarki dagsins. EPA-EFE/David Borrat

Ungstirnið Pedri tryggði Barcelona 1-0 útisigur á Girona í La Liga, spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta.

Pedri hóf leik dagsins á varamannabekknum en þegar Ousmane Dembélé meiddist um miðbik fyrri hálfleiks kom hinn tvítugi Pedri inn af bekknum í því sem reyndist hans 100. leikur fyrir Barcelona.

Ekkert var skorað í fyrri hálfleik en Pedri nældi sér þó í gult spjald í blálok hans. Þegar klukkustund var liðin komst Barcelona yfir, Pedri var þá réttur maður á réttum stað og skilaði boltanum í netið.

Fleiri urðu mörkin ekki en Barcelona fær ekki á sig mörk þessa dagana. Þegar liðið hefur spilað 18 leiki í La Liga hefur það skorað 37 mörk og aðeins fengið á sig sex. Þá eru lærisveinar Xavi með sex stiga forystu á Spánarmeistara Real Madríd sem eiga þó leik til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×