Enski boltinn

Erik­sen yfir­gaf Old Traf­ford á hækjum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hvernig Andy Carroll fékk ekki spjald fyrir þessa tæklingu er rannsóknarefni.
Hvernig Andy Carroll fékk ekki spjald fyrir þessa tæklingu er rannsóknarefni. Martin Rickett/Getty Images

Christian Eriksen yfirgaf Old Trafford, heimavöll Manchester United, á hækjum eftir sigurinn á B-deildarliði Reading í ensku bikarkeppninni í gærkvöld. Eriksen var í byrjunarliði Man United en var tekinn af velli skömmu eftir glannalega tæklingu Andy Carroll.

Eftir markalausan fyrri hálfleik, þar sem mark var dæmt af Marcus Rashford, þá skoraði Casemiro fyrsta mark leiksins á 54. mínútu. Eriksen var tekinn af velli skömmu síðar en hann átti erfitt með gang eftir tæklingu Carroll.

Þó Carroll hafi á óskiljanlegan hátt sloppið við spjald þá nældi hann sér í tvö gul spjöld með stuttu millibili og var sendur í sturtu á 65. mínútu. Hann fer því í leikbann en það gæti verið að Eriksen missi af fleiri leikjum en framherjinn hárprúði.

Eftir leik sást Eriksen yfirgefa Old Trafford á hækjum en ekki er vitað hversu lengi danski miðjumaðurinn verður frá keppni. Erik Ten Hag, þjálfari Man United, sagði að leikmaðurinn yrði skoðaður nánar í dag og þá ætti að koma í ljós hversu lengi liðið yrði án Eriksen.

Hinn þrítugi Eriksen hefur spilað einkar vel það sem af er tímabili eftir að hafa komið til Man Utd á frjálsri sölu í sumar. Það er ljóst að hans yrði sárt saknað en Man United er bæði þunnskipað á miðsvæðinu sem og að liðið mun spila 10 leiki á næstu 30 dögum eða svo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×