Tveggja daga fundi varnarmálaráðherra NATO lauk í Brussel í dag þar sem bandalagið hét órofa stuðningi bandalagsins við varnir Úkraínu gegn innrás Rússlands. Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri segir að NATO hefði einnig aukið fælingarmátt sinn með fjölgun í hersveitum og auknum búnaði í aðildarríkjunum í austur Evrópu.

„Við munum einnig taka til athugunar leiðir til að auka framleiðslugetu okkar þar sem við vonumst til að auka framleiðslu okkar á vopnum og skotfærum. Og við munum grípa til aðgerða til að styrkja varnir
nauðsynlegra innviða, þeirra á meðal neðansjávarkapla og leiðslna,“ sagði Stoltenberg.

Ursula von der Leyen forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins kynnti tíunda pakka refsiaðgerða bandalagsins gegn Rússlandi í dag. Hann kveður á um bann á útflutningi á ýmsum iðnaðar- og tæknivörum sem gagnast hergagnaiðnaðinum í Rússlandi og aðgerðir gegn sjö fyrirtækjum í Íran sem selt hafa Rússum árásar dróna. Evrópusambandið hefði nú innleitt hörðustu refsiaðgerðir í sögu sambandsins sem verði fylgt hart eftir.
„Við munum hafa uppi á ólígörkum sem reyna að fela sig eða selja eignir sínar til að komast hjá refsiaðerðum. Aðildarríkin munu í samvinnu taka saman yfirlit yfir allar frystar eigur rússneska Seðlabankans í Evrópusambandinu. Við þurfum að vita hvar þær eru og hvers virði þær eru,“ sagði vond der Leyen.

Sergey Lavrov utanríkisráðherra Rússlands sagði hins vegar í munnlegri skýrslu til rússneska þingsins í dag að Bandaríkin og undirsátar þeirra hefðu lengi undirbúið árás sína á Rússland í gegnum Úkraínu. Vesturlönd færu ekki í felur með tilgang sinn með stríðinu, sem væri ekki einungis að sigra Rússa á vígvellinum, leggja efnahag Rússlands í rúst heldur ryðja brautina að því að gera Rússa útlæga í samfélagi þjóðanna.
„Og hafa gripið til ólöglegra kúgunaraðferða, hótana og hreins þjófnaðar til að refsa þeim sem fylgja sjálfstæðri og þjóðlegri utanríkisstefnu,“ sagði Lavrov á rússneska þinginu í dag.