Körfubolti

Telur að Kefl­víkingar séu ein­fald­lega að hugsa: „Vá, þetta er bara að gerast aftur“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur.
Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur. Vísir/Hulda Margrét

„Þetta var erfitt, þetta var alltaf að vera erfitt án Harðar,“ sagði Kjartan Atli Kjartansson, þáttastjórnandi Körfuboltakvölds, um leik Keflavíkur og Þórs Þorlákshafnar en Hörður Axel Vilhjálmsson, lykilmaður Keflavíkur, var fjarri góðu gamni í leiknum.

Keflavík steinlá gegn Þór Þorlákshöfn á heimavelli í síðustu umferð Subway deildar karla. Var Keflavík þarna að tapa sínum öðrum leik í röð.

„Mér finnst Keflavíkurliðið án Harðar, það vantar mikið. Hann er mikilvægur í vörn og leiðtoginn í sókn. Það vantar plan án hans. Það er búið að vera þungt yfir Keflavík undanfarið,“ sagði Örvar Þór Kristjánsson áður en Kjartan Atli spurði Sævar Sævarsson einfaldlega af hverju það væri svona þungt yfir Keflavík þar sem liðið hefði verið á toppnum framan af móti.

„Hitti Darri Freyr [Atlason] ekki naglann á höfuðið um daginn þegar hann sagði að fyrir hinn venjulega stuðningsmann og þá aðila sem eru að setja pening í þetta þá er „déjà vu“ í gangi? Fólkið skynjar að þegar allt er undir þá gangi hlutirnir einfaldlega ekki eftir. Held að fólk horfi á tímabilið núna og hugsi „vá, þetta er bara að gerast aftur.“ Sami körfuboltinn, það er ekkert að breytast.“

„Keflavík byrjaði tímabilið vel, það var pakkað á vellinum og stjórnin sem tók við getur þakkað sér fyrir þeirra starf í að búa til stemningu og umgjörð sem að ég held hafi verið í topp tvö eða þrjú á landinu. Svo byrjar að hökta í vélinni, það koma meiðsli og ég held að fólk í bæjarfélaginu trúi ekki að Keflavík geti orðið meistarar,“ sagði Sævar jafnframt.

Sjá má umræðuna í heild sinni í spilaranum hér að neðan.

Klippa: Körfuboltakvöld um hugsanir Keflvíkinga: Vá, þetta er bara að gerast aftur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×