Gott fólk með Guðrúnu Högna eru nýir hlaðvarpsþættir í umsjón Guðrúnar Högnadóttur framkvæmdastjóra Franklin Covey.
Í þættinum ræðir Guðrún við reynslumikla stjórnendur um starfsframa þeirra og feril. Í lýsingu á þættinum segir að þættirnir séu „Stutt spjall við leiðtoga víða að sem varpar ljósi á öfluga stjórnun, vaxandi vinnustaði, bestu ráð, góðar sögur, sæta sigra, súrar áskoranir, hagnýtar lexíur og lífsins speki.“
Í þessum þætti ræðir Guðrún við Skjöld Sigurjónsson, kaupmaður sem alinn er upp í Asparfelli og rekur Ölstöfuna og Herrafataverzlun Komráks og Skjaldar.
,,Við höfum gaman að þessu enn þá. Það er lykillinn,“ segir Skjöldur meðal annars í samhengi við það að í 26 ár hafa hann og félagi hans Kormákur, auk eiginkvenna þeirra, starfað saman í rekstri.
Skjöldur segir eiginkonurnar hafa komið meira inn í reksturinn á síðustu árum, önnur sjái um bókhaldið en hin heildsöluna. Það skrýtna sé þó að til viðbótar við það að vinna öll saman í búðinni alla daga, ferðist þau líka saman og séu mikið saman í frístundum.
Skjöldur segir meðal annars frá skrautlegri rekstrarsögu verslunarinnar, frá kaupum á gömlum lagerum af herrafatnaði í London til high-end hönnunar og útflutnings á íslenskri ull.
Þáttinn má hlusta á hér.