Í frétt Austurfréttar segir að leit sé hafin á Eskifirði að íslenskum manni sem búsettur hefur verið í bænum um nokkra hríð og starfar í nágrenninu. Ekkert hafi sést til mannsins í rúmlega tíu daga.
Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, staðfestir í samtali við Vísi að björgunarsveitir á svæðinu hafi verið að störfum í dag en að ekki hafi verið um formlega leit að manninum að ræða.
Frekar hafi verið um eftirgrennslan að ræða og björgunarsveitarmenn hafi gert fjarleit um bæinn, litið yfir opin svæði og farið með fram strandlengjunni.
Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn við embætti lögreglustjórans á Austurlandi, segir í samtali við Vísi að lögreglan hafi ekki tekið neina ákvörðun um að hefja formlega leit að manninum og að hún muni ekki tjá sig frekar um málið að svo stöddu.
Hann segir að lögreglan muni gefa út tilkynningu um málið, gerist þess þörf.