Skoðun

Pólítískir tagl­hnýtingar

Einar Helgason skrifar

Eitt það ömurlegasta og aumkunarverðasta sem ég veit um er þegar sæmilega skynsamt fólk gerast heilalausir taglhnýtingar einhvers stjórnmálaflokks. Svo ég útskýri þetta fyrirbæri nánar þá er ég að meina fólk sem ánetjast einhverjum stjórnmálaflokki á unga aldri og frá þeirri stundu étur allt gagnrýnislaust sem frá honum kemur hversu arfavitlaust sem það er. Aumkunarverðastir eru þeir sem komnir eru á efri ár og kjósa í blindni þann stjórnmálaflokk sem féll í kramið hjá þeim á yngri árum án þess að hafa sjáanlegan hag af því. Það er kannski hægt að sýna því skilning þegar fólk hefur gengið til liðs við einhvern flokk og kemst þar í vel launuð embætti að ég tali nú ekki um ráðherraembætti. Fólk sem komið er í þá stöðu virðist ekki víla fyrir sér að viðhalda gömlum og fáránlegum draugasögum í þeirri vissu að taglhnýtingarnir trúi því öllu gagnrýnislaust af því að það kemur frá átrúnaðargoðunum.

Að undanförnu hefur vaknað upp af endurnýjuðum krafti hvort við Íslendingar ættum að sækja um fulla aðild að Evrópusambandinu eða ekki. Ég tel að allir viti hvers vegna sú umræða kviknaði og óþarft að rekja það hér. Enn, það var eins og við manninn mælt að auðvitað voru flokksdraugarnir fljótir að vakna og drógu fram gömlu draugasögurnar sem virkuðu vel fyrir tuttugu til þrjátíu árum síðan og virðast virka en í dag. Það er að segja þær virka vel fyrir taglhnýtingana sem fylgja þeim flokki sem þær eru sprottnar úr enda kannski ekki búist við mikilli gagnrýni frá þeim hópi. Eða, og nú ætla ég að spyrja í fullri einlægni. Trúir því einhver í fullri alvöru að eitthvert land sem gerist fullgildur aðili að Evrópusambandinu tapi sjálfstæðinu og þar að auki verði hirtar af þeim allar auðlindir? Er virkilega til fólk í Íslensku samfélagi sem álítur að þær tuttugu og sjö þjóðir sem eru fullgildir aðilar að ESB séu bæði búin að missa allt sjálfstæði og að það sé búið að hirða af þeim allar auðlindir. Finnst fólki það í alvöru meira sjálfstæði að vera einhver aukaaðili að ESB og taka við þeim reglum sem þessar þjóðir koma sér saman um en hafa ekkert um þær að segja sjálf. Er sumt fólk svo skyni skroppið að það viti ekki að þegar samningar liggja fyrir á milli ESB og Íslands að þá verða þeir ræddir í þaula hér heima og í kjölfarið kosið um þá í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ef svo furðulega klausa væri í þeim samningi að einhver hætta væri á að við værum að missa bæði sjálfstæði og auðlindir þá skal ég verða fyrstur manna til þess að segja nei takk. Það er víst nóg að vera nú þegar búin að glutra úr höndum okkar sjávarauðlindinni í hendur örfárra Íslendinga og þeir búnir að gera það að erfðagóssi til ættingja sinna. Það þurfti ekki Evrópusambandið til þess að hirða þá auðlind af þjóðinni það var nóg að ákveðnir stjórnmálaflokkar á Íslandi sæju um þá hluti.

Ein af draugasögunum sem dregnar eru fram handa taglhnýtingunum er sú þvæla að við sem teljum að Ísland sé betur sett með því að ganga að fullu í ESB haldi því fram að þar inni sé hin eilífa sæla með blóm í haga. Staðreyndin er hins vegar sú að það hefur hvergi en tekist í veröldinni allri að skapa hið fullkomna samfélag og ég þori að fullyrða að það hefur engin af þeim sem hlynntir eru aðild haldið því heldur fram. En þegar um sanntrúaða pólitíska taglhnýtinga er að ræða þá væri sjálfsagt hægt að segja þeim að sagan um Gilitrutt sé heilagur sannleikur ef það væri fram borið af átrúnaðargoðunum og þeir munu trúa.

Sú hvatning sem leiddi mig til þess að skrifa þessar hugleiðingar var fréttaklausa sem birtist í Fréttablaðinu fyrir örfáum dögum. En í þeirri frétt segir frá auknum áhuga fólks á Íslandi með inngöngu í Evrópusambandið. Í frásögn þessari er einnig stutt viðtal við einn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar og fulltrúa eins þeirra flokka sem mest eru á móti Evrópusambandsaðild. Auðvitað stóð ekki á svörum og hún var fljót að draga fram gömlu draugasögurnar um sjálfstæðið og auðlindirnar eins og venjulega. Sami lygaþvættingurinn sem virðist ganga svo greiðlega í heilabúið á taglhnýtingunum enda kannski ekki svo þröngt þar fyrir. Það væri forvitnilegt að vita hvort það unga fólk sem var gabbað til að kjósa þennan flokk sem þessi ráðherra er fulltrúi fyrir með innantómu slagorði. „Er ekki bara best að kjósa, Æ þið vitið öll hvað ég er að meina og ég hef ekki einu sinni geð í mér til þess að prenta nafnið á þessi kasúldna fyrirbæri. Ætli það fólk sem var platað til þess að kaupa íbúðir í nafni stöðugleika sé ekki yfir sig hamingjusamt með ástandið. Ég tala nú ekki um fólkið sem situr í leiguíbúðunum þar sem leigan er að nálgast þær hæðir að kaup þess dugar ekki fyrir leigunni í hverjum mánuði.

Síðan birtist í skoðanadálki Vísis grein eftir samflokkskonu ráðherrans þar sem enn er hamrað á sama lygaþvættingnum undir heitinu „Evrópusambandsdraugurinn.“ Þótt þessi grein sé í meginatriðum á svipuðum slóðum og hræðsluáróðurinn sem er að vænta úr þessari áttinni þá er þó minnst á það hvað við erum stórkostlega vel sett með því að vera í EES. Sem sagt við höfum svo mikinn fjárhagslegan ágóða af því að vera komin langleiðina inn í ESB að við erum bara virkilega vel sett bara ef við förum ekki alla leið því þá er voðinn vís. Seinni hlutinn í þessari grein fer svo í þennan hefðbundna áróður með sjálfstæðið og hvað við erum virkilega heppin með að eiga allar okkar auðlindir. Ætla það sé svo að yngra fólkið sem nú þegar er að kikna undan leigugreiðslum eða afborgunum af íbúðum sem það hefur keypt að undanförnu minnist á það í bænum sínum hvað það er heppið að eiga sjávarauðlindina. Dettur einhverjum í hug að arðurinn af þeirri auðlind komi því til bjargar þegar allt er komið í óefni? Ég er nokkuð viss um að svo verður ekki.

Eflaust finnst einhverjum sem lesa þessar línur ég vera einum of dónalegur með því að kalla fólk pólítíska taglhnýtinga sem ekki er sammála mér í lífsskoðunum. En því miður get ég ekki að því gert að taka svo sterkt til orða þegar ég fylgist umræðum í fjölmiðlum eða á milli fólks. Getur það verið að fólk sem komið er til vits og ára sjái ekki hvernig íslenska krónan er búin að fara með venjulegt fólk hér á landi í gegn um tíðina. Af hverju til dæmis, berst fólk sem er í forystu fyrir verkalýðsfélögum ekki fyrir því að tekinn verði upp annar gjaldmiðill til hagsbóta fyrir skjólstæðinga sína. Eða kannski, ef það er eitur í beinum þessa sama fólks að ganga í Evrópusambandið til þess að taka upp evru. Af hverju eru þeir þá ekki með hugmyndir um að tengjast öðrum og stöðugri gjaldmiðli til þess að reyna að stöðva þessa stanslausu hörmungar aftur og aftur í lífi venjulegs fólks. Reyndar, til þess að vera sanngjarn þá hefur verkalýðsforingi frá Akranesi vakið máls á því að við þurfum að henda þessari Íslensku krónu og taka upp stöðugri mynt.

Ég get ekki lokið þessum skrifum án þess að taka eitt lítið dæmi um hvers vegna ég kalla fólk svo óvirðulega nafni sem komið hefur fram hérna. Fyrir einhverjum vikum var stutt viðtal í einum fjölmiðli við forsvarsmann félags smærri fyrirtækja. Eftir því sem mér skildist var sá maður áður en hann komst í þá stöðu búin að viðra þá skoðun að Íslenska krónan hentaði ekki Íslensku samfélag. Aðspurður í þessu viðtali um Íslensku krónuna og hvort hann væri enn þeirrar skoðunar og hvort hún hentaði fyrirtækjum svaraði hann eitthvað á þessa leið. „Ég er náttúrlega í þeirri stöðu þar sem skoðanir eru mjög skiptar um þetta atriði og það er ekki mitt að viðra mína persónulegu skoðun hvað eigi að gera í þeim efnum.“ Útkoman er sú að hann vissi að innan síns félagsskapar var fólk bæði með ólíkar skoðanir og flokksbundnir í þeim stjórnmálaflokkum sem hatast út í Evrópusambandið að best væri að þegja. Sem sagt, það er ekki hægt að ræða málefnalega og frjálst um það sem mest er til bölvunar í Íslensku samfélagi vegna þess að fólk er bundið á pólitískan bás. Þess vegna kalla ég þetta pólitíska taglhnýtinga.

Höfundur er fyrrverandi sendibílstjóri á eftirlaunum. 




Skoðun

Sjá meira


×