Fleiri eru særðir, sumir þeirra alvarlega, eftir skotárásina í gærkvöldi. Lögregla segir að svo virðist sem að byssumaðurinn sjálfur sé á meðal þeirra átta sem eru látnir.
AP-fréttastofan segir að rannsóknarlögreglumenn hafi unnið á vettvangi í alla nótt. Yfirvöld í Hamborg hafa boðað til blaðamannafundar um árásina klukkan 11:00 í dag.
Ríkissalur votta er í Gross Borstel-hverfinu, nokkra kílómetra frá miðborg Hamborgar. Lögreglu barst tilkynning um árásina klukkan 21:15 að staðartíma í gærkvöldi. Þegar lögreglumenn komu á staðinn fundu þeir fólk með skotsár á jarðhæðinni. Þeir heyrðu byssuhvell á hæð fyrir ofan þá og fundu helsærðan mann sem kann að hafa verið byssumaðurinn.
Íbúar í nágrenninu fengu skilaboð í síma sína um lífshættulegar aðstæður og var svæðið í kringum vettvanginn lokað af.
Nágrannar segja AP að þeir hafi heyrt fjölda byssuhvella. Einn þeirra myndaði mann sem skaut ítrekað í gegnum glugga á annarri hæð. Hann segist hafa heyrt á þriðja tug hvella. Um fimm mínútum síðar, eftir að lögregla var komin á staðinn, hafi einn hvellur heyrst til viðbótar.
Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, lýsti skotárásinni í Hamborg í gærkvöldi sem „hrottalegu ofbeldisverki“. Vottar Jehóva sögðu í yfirlýsingu að samfélag þeirra væri slegið yfir hræðilegri árásinni á trúbræður þeirra eftir guðsþjónustu í Hamborg.
Ströng skotvopnalöggjöf er í Þýskalandi en þrátt fyrir það hafa mannskæðar skotárásir átt sér stað þar á undanförnum árum, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Hægriöfgamaður skaut níu manns til bana, þar á meðal tyrkneska innflytjendur, í Hanau áður en hann skaut sjálfan sig og móður sína í febrúar árið 2020.
Byssumaður skaut tvo til bana fyrir utan bænahús gyðinga í borginni Halle á friðþægingardegi gyðinga í október 2019.