Körfubolti

„Þú ert bara ekki að dekka neinn“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Umræða fór fram um gengi Keflavíkur í Subway Körfuboltakvöldi á föstudaginn.
Umræða fór fram um gengi Keflavíkur í Subway Körfuboltakvöldi á föstudaginn. Vísir

Keflvíkingar hafa verið í brekku undanfarið í Subway-deildinni og tapað fjórum leikjum í röð. Kjartan Atli Kjartansson og sérfræðingar í Subway Körfuboltakvöldi ræddu gengi Keflavíkur í þætti vikunnar.

Keflavík tapaði stórt fyrir Val á föstudaginn þegar liðin mættust í Subway-deildinni í Keflavík á föstudagskvöldið. Þetta var fjórða tap Keflavíkur í röð og annað í röð á heimavelli en báðir heimaleikirnir hafa tapast stórt. 

Þeir Kjartan Atli, Jón Halldór Eðvaldsson og Darri Freyr Atlason ræddu málefni Keflavíkur í þættinum Subway Körfuboltakvöld á föstudag.

Jón Halldór er Keflvíkingur í húð og hár og hann hefur áhyggjur af gangi mála.

„Menn eru væntanlega búnir að hafa áhyggjur af þessu í langan tíma. Þetta er búið að vera helvíti dapurt í góðan mánuð þegar Keflavík tapaði fyrir Stjörnunni í bikarnum. Það virðist allur botn hafa dottið úr þessu þá.“

„Það er eitthvað stórkostlegt að. Við erum með frábært lið, eða frábæran mannskap. Ég veit að Hörður er ekki þarna en það er engin afsökun,“ bætti Jón Halldór við en þar á hann við landsliðsmanninn Hörð Axel Vilhjálmsson sem hefur verið frá vegna meiðsla í síðustu leikjum.

Klippa: Umræða í Subway Körfuboltakvöldi um Keflavík

„Það fylgir rosalega mikil orka Herði þegar hann leiðir liðið varnarlega. En ef maður horfir á tölfræðiblaðið og sér að Keflavík fær á sig 50 stig inn í teig en samt skýtur Valur 40% fyrir utan þriggja stiga línuna. Þannig að þú ert ekki bara að dekka neinn,“ bætti Darri Freyr við.

„Það er ekki þannig að það er verið að gefa eftir skot fyrir utan vegna þess að það er verið að múra fyrir inní eða að það sé verið að hlaupa menn af línunni sem leiðir til opinna skota inni í teig. Valur vinnur frákastabaráttuna sömuleiðis. Þarna var þetta gamla góða áræðnin og eljan sem sveik Keflvíkinga.“

Alla umræðu þeirra Kjartans Atla, Jóns Halldórs og Darra Freys má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×