Ragnar hefur verið formaður félagsins síðan árið 2017. Hann fékk einnig mótframboð árið 2021 þegar Helga Guðrún Jónasdóttir bauð sig fram á móti honum. Hlaut Ragnar þá 63 prósent atkvæða en Helga Guðrún 34,4 prósent. Ragnar Þór var sjálfkjörinn án mótframboðs árið 2019.
Elva Hrönn hefur starfað hjá VR síðan árið 2019 eftir að hafa starfað hjá auglýsingastofunni Sahara. Þá hefur hún gegnt embætti trúnaðarmanns innan félagsins.
Ragnar og Elva mættust í Pallborðinu hér á Vísi í síðustu viku, daginn áður en kosningin hófst. Þau greindi á um samstarf við önnur verkalýðsfélög og stöðu félagsins innan Alþýðusambandsins. Kallaði Elva eftir því að formaður VR hefði áhuga á fleiri málefnum.
„Því það sem hann brennur fyrir fær vissulega eitthvað brautargengi. Að sama skapi ef hann minnist ekki á önnur málefni er voðalega lítið rætt um þau nema í einhvern ákveðinn tíma,“ sagði Elva Hrönn meðal annars. Til að mynda ætti það við um málefni ungs fólks, útlendinga og jafnréttismál.
Ragnar sagðist hafa unnið að fjölda verkefna sem ekki fengju athygli í fjölmiðlum, til að mynda við húsnæðismál ungs fólks með tilurð hlutdeildarlána.
„Við höfum svo sannarlega verið að beita okkur fyrir þessa hópa sem eru hvað viðkvæmastir. Eru að lenda í því að fá tugþúsunda hækkanir á leigu. Við hótuðum því til dæmis að taka alla sjóði VR út úr Kviku banka, sem var þá nýbúinn að taka yfir Gamma sem þá átti Almenna leigufélagið. Sem varð til þess að allar hækkanir voru dregnar til baka og fólki varð boðinn langtíma samningur og meiri stöðugleiki,“ sagði Ragnar Þór.
Einnig er kosið í stjórn félagsins en alls eru sextán manns í framboði. Sjö manns fá sæti í stjórninni og þrír verða varamenn. Í framboði eru:
Árni Konráð Árnason
Gabríel Benjamin
Halla Gunnarsdóttir
Helga Ingólfsdóttir
Jennifer Schröder
Jóhanna Gunnarsdóttir
Kristjana Þorbjörg Jónsdóttir
Nökkvi Harðarson
Ólafur Reimar Gunnarsson
Sigríður Hallgrímsdóttir
Sigurður Sigfússon
Svanhildur Ólöf Þórsteinsdóttir
Vala Ólöf Kristinsdóttir
Þorsteinn Þórólfsson
Þórir Hilmarsson
Ævar Þór Magnússon
Kosningunni lýkur klukkan 12 í dag og rúmum klukkutíma síðar verða frambjóðendur boðaðir á fund með kjörstjórn þar sem úrslitin verða tilkynnt.