Síðasta sumar greindum við frá því að móðir heyrnarlauss drengs treysti sér oft ekki til að senda son sinn á leikskólann þótt skólinn sérhæfi sig í að mæta þörfum heyrnarlausra barna. Stundum hafði drengurinn engan til að eiga samskipti við þar sem oft vanti táknmálstalandi starfsmann á vakt.
Hún kærði skólann til menntamálaráðuneytisins og óttaðist að þurfa að flytja út fyrir landsteinana í leit að þjónustu fyrir börnin.
Flúðu þjónustuleysið á Íslandi
Þær áhyggjur hafa nú raungerst en Sigríður Vala Jóhannsdóttir, alltaf kölluð Sigga Vala, og maðurinn hennar Sindri Jóhannsson fluttu með syni þeirra tvo fyrir rúmlega tveimur vikum til Svíþjóðar þar sem þjónustuleysið hér á landi sé algjört.
„Við Sindri viljum að synir okkar geti sótt sér menntun og þá á ég við að þeir geti gengið í skóla þar sem heyrnarlaus börn mæta ekki útskúfun. Skóla þar sem þeir sitja ekki fremst í skólastofunni og þurfa að treysta á túlk klukkutímum saman. Skóla þar sem þeim er ekki strítt vegna táknmálsins,“ segir Sigga Vala og heldur áfram að telja upp dæmi.
„Skóla þar sem kennararnir tala beint við þá og þar sem þeir eru þátttakendur í öllu skólastarfi. Þar sem skólinn er settur upp og hannaður fyrir börn eins og þá. Skóla þar sem þeir geta eignast vini sem fylgja þeim út fullorðinsárin.“
Hún segir að slíkur skóli gæti vel þrifist á Íslandi en því miður sé enginn slíkur í boði hér á landi.
„Það er helsta ástæða þess að við fluttum af landi brott.“
Bætir í hópinn
Fjölskylda Siggu Völu er ekki sú eina sem hefur flúið land vegna þjónustuleysis en í júlí greindum við frá því að minnst þrjár fjölskyldur heyrnarlausra barna hafi gert slíkt hið sama.
„Hvar er áætlunin?“
Fjölskyldan býr nú í borginni Örebro sem Sigga Vala segir að sé oft kölluð höfuðborg táknmálsins.
„Borgin hefur aðgerðaráætlun þegar kemur að táknmálstalandi fólki, hvar er slík áætlun á Íslandi?“
Sigga Vala segir að aðal munurinn á Íslandi og Svíþjóð, þegar kemur að táknmálinu, sé sá að táknmálstalandi fólk hefur tilverurétt þar ytra.
„Borgin viðurkennir táknmál sem tungumál, frekar en tól sem heyrnarlausir nota.“
Níu mánuðir eru síðan menningarmálaráðherra sagði að gera þyrfti betur í þessum málum.
„Heyrnarlausir sjaldnast í ábyrgðarstöðu á Íslandi“
Áður en synir Siggu Völu og Sindra byrjuðu í leikskóla í Svíþjóð fóru foreldrarnir á fund með deildarstjóranum.
„Áður en synir okkar byrjuðu í leikskóla í Svíþjóð þá hittum við deildarstjórann og það var í fyrsta sinn sem við tölum við skólastjórnanda án þess að þurfa að reiða okkur á túlk. Skólastjórnendurnir töluðu táknmál og það sem meira er, þeir eru heyrnarlausir. Heyrnarlaust fólk er sjaldnast í ábyrgðarstöðu á Íslandi.“

„Synir okkar eiga loks sinn stað í samfélaginu“
Sigga Vala segir að það hryggi hana og fjölskylduna mjög að hafa þurft að flytja til annars lands til þess að sækja þjónustu sem ætti að vera sjálfsögð.
„Okkur finnst mjög leiðinlegt að hafa þurft að flytja frá Íslandi. Við erum Íslendingar en á sama tíma finnur maður fyrir örlitlum létti. Synir okkar fá nú að minnsta kosti að eiga sinn stað í sænsku samfélagi.“
