Viðskipti innlent

Loka hjá Berki eftir fimmtíu ára starf og nítján missa vinnuna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Börkur hefur verið með starfsemi á Akureyri frá árinu 1970.
Börkur hefur verið með starfsemi á Akureyri frá árinu 1970. Börkur

Öllum starfsmönnum Trésmiðjunnar Barkar á Akureyri, alls nítján talsins, var sagt upp störfum í lok nýliðins mánaðar og mun rúmlega fimmtíu ára sögu félagsins líða undir lok í sumar.

Vikublaðið greindi fyrst frá málinu. Trésmiðjan Börkur var stofnuð á Akureyri árið 1970 og hefur sérhæft sig í smíði glugga og hurða.

Greint var frá því fyrir um ári að fjögur iðnfyrirtæki – Trésmiðjan Börkur, Gluggasmiðjan Selfossi, Glerverksmiðjan Samverk og Sveinstunga – hefðu ákveðið að sameinast undir merkjum Kamba. Var þar tekið fram að sameinað félag yrði einn stærsti framleiðandi á gluggum, hurðum og gleri á Íslandi með um 2,5 milljarða króna í veltu.

Valgeir Magnússon, markaðsstjóri Kamba, segir iðnað á borð við þann sem Kambar reki kalla á mikla sjálfvirkni þar sem launakostnaður á Íslandi hafi hækkað mjög undanfarið ár eða svo. Við bætist aukinn flutningskostnaður auk þess sem huga þurfi að kolefnissporinu.

Kambar hyggi á byggingu stórrar verksmiðju í Þorlákshöfn sem verði ein sú fullkomnasta þegar komi að smíði á gluggum og hurðum. Starfsfólki Kamba á Akureyri hafi verið boðin vinna út maí 2024 ásamt bónusgreiðslu í þrjá til sex mánuði.

Starfsmenn hafi hafnað tilboðinu og því hafi stjórnendur Kamba neyðst til þess að grípa til uppsagna. Starfsemin á Akureyri verði flutt í verksmiðju sem Kambar eiga á Selfossi þar til verksmiðjan í Þorlákshöfn verður opnuð.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×