Aðgangskerfið í Laugardalslaug er í raun tvöfalt; svörtu og rauðu armböndin sem sjást hér veita bæði aðgang að laug og skápum í búningsklefum. Gula armbandið er fyrir korthafa og veitir aðeins aðgang að skápum. Og að lokinni sundferð á maður að skila armbandinu í sérstaka í rauf en vandamálið er að fólk virðist gleyma því, ítrekað. Nú er svo komið að alvarlegur skortur er á gulu armböndunum; þau virðast komin í fóstur á heimilum gesta víða um borg.
„Við erum í raunverulegum vanda akkúrat núna. Við erum stanslaust að tæma skammtarana til að reyna að dæla út og eins og á sumardaginn fyrsta þar sem komu 3300 manns. Þá er býsna flókið að halda öllum gangandi,“ segir Árni Jónsson, forstöðumaður Laugardalslaugar.
Þetta er afar kostnaðarsamt fyrir sundlaugina að sögn Árna, sem biðlar til gesta að skila armböndunum. Tekið verði vel á móti þeim.
„Ég segi nú ekki að fólk hafi komið grímuklætt, en svona nánast, með fulla poka af armböndum og ég held að metið hafi verið svona 45 armbönd í einum poka. Ég á líka góða fastakúnna hérna sem segja: Ég tek það aldrei af mér. Mæta jafnvel í móttöku á Bessastaði með gult armband á hendinni,“ segir Árni.
Og þá er kannski ekki úr vegi að velta því upp hvort um sé að ræða óþarfa tæknivæðingu. Hvað með gömlu góðu lyklana, til dæmis? Ja, málið með þá er að þeir rispa rennibrautirnar.
„Þannig að rennibrautaframleiðendur hafa svolítið sagt bara: Nei, nei, nei, ekki lykla.“
En Árni er sammála því að kerfið sé of flókið. Leitað sé nýrra lausna til að einfalda aðgang að laug og skápum.
„Hvort að við förum að selja armbönd til viðskiptavina, það er svona eitt sem við erum að skoða, bara á kostnaðarverði, þannig að fólk geti eignast það strax, verið bara með sitt þannig að það fækki því sem við erum að tapa út.“