Heimasíður opinberra stofnana hafa legið niðri í morgun, meðal annars vefur Alþingis, vefir Hæstaréttar og Landsréttar og illa hefur gengið að komast inn á vef Stjórnarráðsins til dæmis.
„Ég get staðfest það að það eru árásir í gangi á einhverjar heimasíður,“ segir Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra í samtali við fréttastofu.
Þá segir hann til skoðunar hjá embættinu, og verið að bregðast við, hvers vegna hefur verið síma- og netlaust á Alþingi.
Hann segir að vel hafi verið fylgst með þessum málum undanfarnar vikur og vel sést í aðdraganda leiðtogafundar Evrópuráðsins í Hörpu að netárásum hafi fjölgað dag frá degi.
„Við sjáum það núna í morgun að þessi þróun heldur áfram en við erum mjög vel vakandi og erum að bregðast á öflugan hátt við þessu,“ segir Runólfur.
„Neyðaröryggissveitin okkar, CERT-IS, stýrir vörnum okkar gagnvart þessu. Þau eru í góðum samskiptum við netöryggissérfræðinga í öllum stofnunum og fyrirtækjum. Þannig að það eru breiðar varnir sem virkjast þegar svona gerist.“
Hvaðan koma árásirnar?
„Við erum með óstaðfestar upplýsingar en ég get ekki tjáð mig frekar um það.“