Körfubolti

Fá aftur tvöfaldan meistaradúett

Sindri Sverrisson skrifar
Thelma Dís Ágústsdóttir og Sverrir Þór Sverrisson endurnýja samstarf sitt sem skilaði svo miklu síðast. Agnes María Svansdóttir og Anna Lára Vignisdóttir ætla að spila áfram með Keflavík.
Thelma Dís Ágústsdóttir og Sverrir Þór Sverrisson endurnýja samstarf sitt sem skilaði svo miklu síðast. Agnes María Svansdóttir og Anna Lára Vignisdóttir ætla að spila áfram með Keflavík. Facebook/@keflavikkarfa

Kvennalið Keflavíkur í körfubolta hefur endurheimt tvær algjörar aðalpersónur frá tímabilinu 2016-17 þegar liðið vann síðast Íslandsmeistaratitilinn.

Sverrir Þór Sverrisson hefur verið ráðinn þjálfari liðsins á nýjan leik en hann tekur við af Herði Axel Vilhjálmssyni sem er orðinn leikmaður Álftaness.

Sverrir, sem var aðstoðarþjálfari karlaliðs Keflavíkur í vetur, hefur tvívegis áður verið þjálfari kvennaliðs Keflavíkur um tveggja ára skeið, og þrívegis hefur liðið orðið Íslandsmeistari undir hans stjórn. Liðið vann tvöfalt árið 2017 og varð svo bikarmeistari 2018.

Thelma Dís Ágústsdóttir var lykilmaður í þessum titlum en fór svo til Bandaríkjanna þar sem hún spilaði körfubolta og sinnti háskólanámi.

Thelma Dís snýr nú aftur til Keflavíkur en hún var valinn leikmaður ársins í efstu deild árið 2017.

„Ég er bara ótrúlega spennt að vera komin heim í Keflavík. Mér líst mjög vel á liðið enda eru þetta flestar stelpur sem ég spilaði með áður en ég fór út. Sverrir var náttúrulega líka að þjálfa okkur þá þannig að ég er spennt að spila fyrir hann aftur og vonandi vinna einhverja titla fyrir Keflavík,“ sagði Thelma í tilkynningu frá Keflavík.

Þar var einnig greint frá því að Agnes María Svansdóttir og Anna Lára Vignisdóttir hefðu framlengt samninga sína við Keflavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×