Handbolti

Horfa áfram til Íslands og hafa nú tryggt sér Döhler

Sindri Sverrisson skrifar
Phil Döhler hefur sett sinn svip á Olís-deildina síðustu ár og verið einn allra besti markvörður hennar.
Phil Döhler hefur sett sinn svip á Olís-deildina síðustu ár og verið einn allra besti markvörður hennar. VÍSIR/HULDA MARGRÉT

Eftir að hafa varið mark FH með mikilli prýði í Olís-deildinni í handbolta síðustu fjögur ár er Þjóðverjinn Phil Döhler búinn að skrifa undir samning við „Íslandsvinina“ í Karlskrona í Svíþjóð.

Karlskrona vann sig upp í sænsku úrvalsdeildina nú í vor og forráðamenn sænska félagsins eru greinilega með augun á Íslandi.

Þeir byrjuðu á að tryggja sér landsliðsmanninn Ólaf Guðmundsson, sem spilaði í Sviss í vetur, en Ólafur var einn albesti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar sem leikmaður Kristianstad.

Karlskrona fékk svo einnig línu- og varnarmanninn öfluga Þorgils Jón Svölu Baldursson sem fagnað hefur fjölda titla með Val síðustu ár, og nú hefur Döhler fylgt í kjölfarið og samið til tveggja ára.

FH-ingar eru hins vegar ekki á flæðiskeri staddir hvað varðar markverði því félagið var búið að greina frá því að landsliðsmaðurinn Daníel Freyr Andrésson myndi snúa aftur í Krikann í sumar úr atvinnumennsku.

Tobias Karlsson, íþróttastjóri Karlskrona, segir vonir bundnar við það að Döhler muni standa sig vel í Svíþjóð og passa vel inn í leikmannahóp félagsins. Sjálfur er Döhler ánægður með sín vistaskipti.

„Þegar HF Karlskrona sýndi áhuga fannst mér það mjög álitlegur kostur. Liðið og félagið allt virðist vel samstillt og saman getum við vonandi tekið eitt skref enn. Ég legg mitt að mörkum með því að verja skot og hlakka til að spila fyrir framan fulla höll í Brinova Arena,“ segir Döhler á heimasíðu Karlskrona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×