Umfjöllun, viðtal og myndir: ÍBV - Haukar 28-34 | Haukar skemmdu partýið í Eyjum

Einar Kárason skrifar
Haukar eru á lífi í úrslitaeinvígi Olís-deildar karla.
Haukar eru á lífi í úrslitaeinvígi Olís-deildar karla. Vísir/Hulda Margrét

Haukar unnu lífsnauðsynlegan sex marka sigur er liðið heimsótti ÍBV í þriðju viðureign liðanna í úrslitaeinvígi Olís-deildar karla í handbolta í kvöld. Lokatölur 28-34 og Haukar komu þar með í veg fyrir að Eyjamenn fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum í kvöld.

Stemningin og lætin hófust löngu fyrir leik og var Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja snemma troðfull af fárveikum handboltasjúklingum. Umgjörðin hreint stórkostleg og stuðningsmenn byrjaðir að syngja áður en nokkur leikmaður steig út á parket.

Vísir/Hulda Margrét

Eins og við var að búast í leikjum milli þessara liða var leikurinn hnífjafn í upphafi, fyrst núll núll og svo eitt eitt. Haukar voru líflegir í upphafi og stóð vörnin sterk með Aron Rafn Eðvarðsson fyrir aftan sig. Gestirnir leiddu með einu til tveimur mörkum bróðurpart hálfleiksins og komust mest í fjögurra marka forustu skömmu fyrir hálfleik í stöðunni 13-17. Eyjamenn áttu hinsvegar lokamark fyrri þrjátíu þegar Kári Kristján Kristjánsson skoraði af vítalínunni.

Staðan 14-17 í hálfleik og greinilegt að Hafnfirðingar hefðu engan áhuga á því að láta sópa sér úr keppni í úrslitaeinvíginu.

Vísir/Hulda Margrét

Heimamenn skoruðu fyrsta markið í síðari hálfleik en við tók sami leikur og átti sér stað í fyrri hálfleik. Góð vörn gestanna hélt áfram að skila. Með bakið upp við vegg og heila Eyju gegn sér stóðu þeir vaktina vel. Eyjaliðið sem hefur leikið á alls oddi í þessari úrslitakeppni náði mest að minnka muninn í tvö mörk og var það í upphafi síðari hálfleiks.

Vísir/Hulda Margrét

Haukar voru alls ekki mættir til leiks til þess að taka þátt heldur til að sýna sig og sanna. ÍBV virtist í raun aldrei ná almennilegum takti og vel upp settur leikur Hauka núllaði út það sem þeir hafa átti í erfiðleikum með í fyrstu tveimur leikjunum.

Þegar átta mínútur voru eftir var munurinn sex mörk, 22-28 og brekkan orðin brött. Eyjamenn hafa sýnt frábæra frammistöður undir lok leikja upp á síðkastið en svo var ekki upp á teningnum í dag. Hafnfirðingar héldu haus upp á tíu. Þeir spiluðu leikinn eins og sinfóníu Beethoven síðustu mínútur leiksins og í raun drápu alla þá von sem ÍBV, og stúkan, gerði til þess að koma til baka.

Vísir/Hulda Margrét

Niðurstaðan eftir sextíu mínútur var sex marka sigur Hauka, 28-34 og ljóst að liðin mætast aftur á Ásvöllum og einvígið galopið.

Af hverju unnu Haukar?

Haukaliðið mætti til þess að vinna leik í kvöld. Með bakið upp að vegg sýndu þeir sitt rétta andlit og Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, getur tekið heilan helling úr þessum leik fyrir fimmta leik liðanna á Ásvöllum. Vörn og markvarsla voru betri en hjá ÍBV, ásamt því að gestirnir virtist aldrei í vandræðum með að skapa sér færi.

Hverjir stóðu upp úr?

Rúnar Kárason hélt sínum takti og skoraði heil þrettán mörk af tuttugu og fimm mörkum Eyjamanna. Næsti maður við hann skoraði fimm, og þar liggur vandinn. Ólafur Ægir Ólafsson og Stefán Rafn Sigurmannsson drógu vagninn fyrir gestinna með átta mörk hvor, en Stefán skoraði fimm af vítalínunni.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur ÍBV var ekki í neinum takti og svo virtist sem Rúnar þyrfti að bera liðið á herðum sér og taka á skarið þegar færi voru vandfengin. Þrettán mörk úr fimmtán skotum er ekkert til að skammast sín fyrir, en þegar næstu menn skila fimm og fjórum mörkum þá er það vesen.

Eyjastúkunni fannst halla á ÍBV hvað varðar dómgæslu en fyrsta brottvísun gestanna leit dagsins ljós á fertugustu og fimmtu mínútu, sem hljómar eins og í knattspyrnuleik, en þá var Eyjamanni vikið af velli sömuleiðis. ÍBV komst í yfirtölu í fyrsta skipti þegar sjö mínútur eftir lifðu. Þeir sem í stúkunni sátu sáu leikinn án endursýninga svo við skulum leyfa teyminum að hafa rétt fyrir sér þar til annað kemur í ljós.

Vísir/Hulda Margrét

Hvað gerist næst?

Við fáum að minnsta kosti fjórða leikinn. Sá verður á Ásvöllum á mánudaginn kemur og vægast sagt allt undir.

Ásgeir Örn: Við vorum klókari og skoruðum úr færunum

Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka.Vísir/Hulda Margrét

Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, var í skýjunum með sína menn í kvöld.

„Mér fannst við vera búnir að gera marga hluti vel síðustu tvo leiki en þeir voru klókari en við undir lokin. Við höfðum trú og héldum út í dag.”

„Uppleggið var svipað. Mikið betra flæði sóknarlega og við fundum betri svör við vörn þeirra. Það kemur sjálfstraust í mína menn og það var ekkert sem stoppaði þá.”

„Við vissum að það kæmi leikhlé og að þeir kæmu með áhlaup. Við töluðum um þetta en munurinn núna var að við vorum klókari og skoruðum úr færunum.”

En er oddaleikur framundan?

„Við ætlum okkur sigur á Ásvöllum og fá að mæta hingað aftur í næstu viku. Það er ekkert annað í boði,” sagði Ásgeir Örn himinlifandi.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira