Úrhelli og hávaðarok var í Keflavík á meðan leikurinn fór fram. Hlutskipti tökumannsins var því ekki öfundsvert.
Hann þurfti að vera duglegur að þurrka af linsunni og gerði það í gríð og erg. Og litagleðin var við völd hjá tökumanninum Sveini M. Sveinssyni sem notaði alltaf mismunandi litaða klúta til að þurrka af linsunni. Sveinn notaði bláan, hvítan, appelsínugulan og grænan klút við verkið.
„Þetta er það sem stóð upp úr í þessum leik. Ég tek hatt minn ofan fyrir þessum tökumanni. Hann var með alla klútana sína og leysti þetta því þetta var erfitt verkefni sem hann var með í kvöld,“ sagði Guðmundur um frammistöðu Sveins.
Leikurinn endaði með markalausu jafntefli en hans verður helst minnst fyrir ótrúlegt klúður Blikans Klæmints Olsen fyrir opnu marki þegar um tíu mínútur voru eftir.
Innslagið með tökumanninn með klútana má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.