Myndband af athæfinu hefur farið eins og eldur í sinu um netheima eftir að síðasti þátturinn var sýndur í sjónvarpi síðastliðinn sunnudag. Aðdáendur höfðu beðið eftir síðasta þættinum með mikilli eftirvæntingu. Jóhannes Haukur Jóhannesson fór með stórt hlutverk í seríunni sem sýnd er á Stöð 2 og tókst að lauma að frægum Fóstbræðrabrandara.
Þættirnir eru margverðlaunaðir og hverfast um milljarðamæringana í Roy fjölskyldunni sem eru meirihlutaeigendur í fjölmiðlaveldinu WayStar RoyCo, sem minnir glettilega mikið á bandarísku sjónvarpsstöðina Fox. Sú er einmitt í eigu milljarðamæringsins Rupert Murdoch. Með helstu hlutverk fara Brian Cox, Jeremy Strong, Sarah Snook og Kieran Culkin.
Þættirnir hafa lengi haft ákveðna Íslandstengingu en önnur sería þáttanna var að hluta tekin upp á Íslandi og mætti Jeremy Strong í hlutverki Kendall Roy til landsins. Lék Ingvar E. Sigurðsson í stóru aukahlutverki í þeirri seríu.