Hækkun fasteignamats er mjög misjöfn eftir hverfum á höfuðborgarsvæðinu. Einnig hvort um sé að ræða fjölbýli eða sérbýli. Hægt er að sjá hækkunina og fermetraverðið í einstaka hverfum á kortasjá Fasteignaskrár.
Í Staðahverfinu hækkar fasteignamat fjölbýliseigna um 22,7 prósent á milli ára. Aðeins tvö önnur hverfi Reykjavíkur eru með yfir 20 prósenta hækkun. Það eru Skerjafjörðurinn og Verkamannabústaðahverfið í Vesturbænum.
Einnig eru nokkuð miklar hækkanir í norðurhluta Vesturbæjar, suðurhluta Þingholta, kringum Hagatorg, í Ártúnsholti og á Kjalarnesi. Allt nærri 20 prósentum.
Lang minnsta hækkunin er á Valsreitnum, aðeins 6,6 prósent. Aðeins í þremur öðrum hverfum er hækkunin undir tíu prósentum. Það er Miðbænum frá Tjörn að Snorrabraut, Holtahverfi og Vogabyggð.
Suður Hlíðarnar dýrastar
Áberandi hæsta fermetraverð fjölbýlis er í Suður Hlíðunum, það er 912 þúsund krónur. Verðið á Valsreitnum er næst hæst, 876 þúsund, en þar á eftir kemur Miðbærinn frá Tjörn að Snorrabraut.

Kjalarnesið hefur lang lægsta fermetraverðið í Reykjavík, 410 þúsund. Tvö hverfi í þéttbýli eru undir 600 þúsundum, það eru Fella og Bakkahverfin í Breiðholti.
Rándýrt einbýli í Vogabyggð
Vogabyggð hefur hæsta fermetraverðið í sérbýli, 1.156 þúsund krónur. Ekkert annað hverfi kemst nálægt þessari tölu.
En í öðru sæti eru Ægissíða og Hagahverfi í Vesturbænum með 784 þúsund króna fermetraverð.
Mesta hækkun á Eiðistorgi
Hækkanirnar í Kópavogi eru nokkuð jafnar eftir hverfum, á bilinu 8,6 til 12,2 prósent fyrir fjölbýliseignir. Hæsta fermetraverð Kópavogs er í Vesturbænum, 751 þúsund krónur, en það lægsta í Kórahverfinu, 665 þúsund.
Fjölbýli á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi hefur hækkað mest á öllu höfuðborgarsvæðinu, um 24,8 prósent. Hæsta fermetraverðið er hins vegar í hverfinu Tjarnir og Grandi, 770 þúsund krónur.
Sjáland og Vellir dýrir
Í Garðabæ hefur fasteignamat fjölbýlisíbúða í Urriðaholti hækkað mest á milli ára, um 16,9 prósent. Fermetraverð er nokkuð jafnt eftir hverfum í Garðabæ en það hæsta er í Sjálandshverfinu, 768 þúsund krónur. Fermetraverðið á Álftanesi er 665 þúsund.

23,8 prósent hækkun er á fjölbýliseignum í sunnan byggðar í Hafnarfirði. Flest húsnæði þar er þó atvinnuhúsnæði og meðalfermetraverð fjölbýlis aðeins 50 þúsund krónur samkvæmt HMS. Dýrasta fermetraverðið í Hafnarfirði, 691 þúsund krónur, er á Völlunum.
Í Mosfellsbæ er hæsta fermetraverð fjölbýlis í Miðbænum, 717 þúsund krónur. Hækkunin er nokkuð jöfn eftir hverfum, á bilinu 10 til 15,5 prósent.