Gengið verður klukkan 14 frá Gömlu höfninni í Ægisgarði að plötubúðinni Smekkleysu á Hjartatorgi. Þar sjá meðal annars Hera Hilmarsdóttir, leikkona og Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor í sjálfbærnivísindum um ræðuhöld. Högni og Jófríður verða með tónlistaratriði og Björk þeytir skífum ásamt Guðmundi Arnalds og Juanma b2b. Listasmiðja verður í boði fyrir börnin.
Þá verða íslensk stjórnvöld hvött til þess að stöðva veiðar á langreyðum. Ungir umhverfissinnar munu tilkynna málsókn sem er í vinnslu á hendur íslenskum stjórnvöldum í tengslum við útgefið hvalveiðileyfi.
Vakin verður athygli á tveimur undirskriftalistum, íslenskum og alþjóðlegum, sem mótmæla hvalveiðum á Íslandi. Samtals eru þessir listar komnir með um 118 þúsund undirskriftir. Til stendur að afhenda Svandísi Svavarsdóttur, matvælaráðherra og Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra listana í næstu viku.