Í fréttum Stöðvar 2 var sýnt frá smíði bátsins í skemmu Faxaflóahafna í Sundahöfn. Þar var Hafliði Már Aðalsteinsson að tjarga, þó ekki með biksvartri tjöru heldur blandaðri með línóleum.
„Ef þetta er eintóm tjara þá verður hún lin í sólinni og þá fer fólk að skemma fötin sín á þessu. Af því að þetta verður sýningargripur fyrir fólk í góðum fötum en ekki fyrir sjómenn í skinnfötum, eins og var í gamla daga,“ útskýrir bátasmiðurinn.

Við sögðum frá bátasmíðinni í fréttum í janúar þegar hún var nýhafin. Verkbeiðendur eru áhugamenn í Grindavík um forna sjávarhætti og er áformað að Grindvíkingarnir sæki bátinn á morgun.
Hafliði heldur að svona skip hafi síðast verið smíðað á Íslandi árið 1910. Þó að báturinn teljist áttæringur er hann á stærð við teinæring, ellefu metra langur.
„Þeir voru ekkert mikið stærri meðan menn voru að nota þetta í alvörunni. Þetta er náttúrlega nítjándu aldar bátur í rauninni. Svona voru þeir áður en vélarnar komu til.“

Yngsti tréskipasmiður landsins, Einar Jóhann Lárusson, var að leggja lokahönd á siglutrén. Þau verða tvö á bátnum, afturmastur og frammastur, smíðuð úr íslenskum við.
„Íslenskt lerki úr Þjórsárdal. Það er mjög gaman að geta byrjað að nota íslenskan við í þetta,“ segir Einar.
„Máttarviðirnir, bönd, kjölur og stefni, eru greni innan úr Þjórsárdal og svolítið af því reyndar úr Heiðmörkinni líka. En furan er finnsk og naglarnir norskir. Þannig að þetta er svona norrænt, samnorrænt,“ segir Hafliði.
Báturinn verður frumsýndur á sjómannadeginum á sunnudag í Grindavík á Sjóaranum síkáta.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: