Enski boltinn

Man. United missir tvo af sínum betri leik­mönnum frítt í sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alessia Russo í leik með Man United.
Alessia Russo í leik með Man United. Vísir/Getty

Greint hefur verið frá því að framherjinn Alessia Russo og hægri bakvörðurinn Ona Batlle verði ekki áfram í herbúðum kvennaliðs Manchester United. Þetta er mikið högg fyrir félagið en það tryggði sér þátttöku í Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn á nýafstöðnu tímabili.

Man United staðfesti í dag að Russo myndi yfirgefa félagið þegar samningur hennar rynni út um mánaðarmótin. Arsenal bauð í framherjann í janúar og hefði gert hana að dýrasta leikmanni í sögu kvennaboltans en Man United neitaði.

Talið er að lið frá Bandaríkjunum eru einnig á eftir undirskrift þessa 24 ára gamla framherja sem er uppalinn hjá Charlton Athletic en lék með yngri liðum Chelsea frá 2010 til 2016 áður en hún fór í bandaríska háskólaboltann. Á sama tíma lék hún með Brighton & Hove Albion á Englandi áður en hún færði sig til Man United árið 2020.

Russo var mikilvægur hluti af liði Englands sem stóð uppi sem sigurvegari á Evrópumótinu sumarið 2022.

Hin 24 ára gamla Batlle var hreint út sagt mögnuð í hægri bakverðinum hjá Man United á síðustu leiktíð en það er næsta öruggt að hún haldi heim til Katalóníu og spili fyrir Evrópumeistara Barcelona á næstu leiktíð.

Sem stendur er enska landsliðskonan Lucy Bronze í hægri bakverði Barcelona en óvíst er hvað undirskrift Batlle þýðir fyrir hana.

Batlle er alin upp hjá Barcelona en spilaði aldrei fyrir félagið. Hún spilaði fyrir Madríd CFF og Levante áður en hún færði sig til Manchester-borgar árið 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×