Enski boltinn

Ekki mögu­leiki að Klopp taki við þýska lands­liðinu

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jurgen Klopp verður áfram hjá Liverpool.
Jurgen Klopp verður áfram hjá Liverpool. Vísir/Getty

Umboðsmaður Jurgen Klopp þvertekur fyrir að Klopp muni taka við þýska landsliðinu fyrir Evrópumótið á næsta ári. Þýska blaðið Bild hefur hafið herferð til að fá Klopp í landsliðsþjálfarastöðuna.

Það hefur lítið gengið hjá þýska landsliðinu í knattspyrnu að undanförnu og tapaði liðið báðum landsleikjum sínum í nýliðnum landsliðsglugga, 1-0 gegn Pólverjum og síðan 2-0 gegn Kólubmíu. Liðið er nú þegar komið með keppnisrétt á Evrópumótinu næsta sumar þar sem mótið verður haldið á þeirra heimavelli.

Hansi Flick er núverandi landsliðsþjálfari en það heyrist æ hærra í þeim í Þýskalandi sem vilja skipta honum út fyrir Evrópumótið. Þar hefur nafn Jurgen Klopp oftasy verið nefnt til sögunnar og meðal annars hefur þýska blaðið Bild komið af stað herferð til að sannfæra Klopp um að hætta hjá Liverpool til að taka við Þýskalandi.

Hansi Flick á ekki sjö dagana sæla sem landsliðsþjálfari Þýskalands.Vísir/Getty

Sú verður ekki raunin ef eitthvað er að marka umboðsmann Klopp.

„Hann er með samning við Liverpool og Þýskaland er nú þegar með þjálfara. Þetta er ekki til umræðu,“ sagði Marc Kosicke í viðtali við þýska fjölmiðla í dag.

Klopp er samningsbundinn Liverpool þar til sumarið 2025 en hann hefur verið knattspyrnustjóri liðsins síðan árið 2015. 

Í könnun Bild er Klopp með langflest atkvæði á meðal þeirra sem þýska þjóðin vill að taki við. Hann er með 47% af þeim rúmlega 260.000 sem hafa kosið en Julian Nagelsmann er næstur með 12% atkvæða. Flick er þriðji með 11%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×