Athygli vekur að farið var beint úr grænum yfir í appelsínugulan lit, en millistiginu gulum sleppt. Gulur litakóði táknar að eldstöðin sýni merki um virkni, umfram venjulegt ástand.
Appelsínugulur er næstefsta stig á kvarðanum. Efsta stigið er rauður, sem táknar að eldgos sé yfirvofandi eða hafið - líklegt sé að aska berist upp í lofthjúpinn.
Fagradalsfjall er eina íslenska eldstöðin sem núna er með annan litakóða en grænan. Þannig eru eldstöðvarnar Grímsvötn, Katla og Askja á grænum lit, en þær hafa allar verið að sýna ýmis merki um óróa undanfarin misseri.
Þótt eldgígarnir sem gusu í eldgosunum tveimur í Fagradalsfjalli hafi aðeins verið í um tuttugu kílómetra loftlínu frá Keflavíkurflugvelli höfðu eldgosin þar árin 2021 og 2022 nær engin áhrif á alþjóðaflug né notkun flugvallarins.