„Þetta er í fyrsta sinn sem ég kem til þessarar fallegu borgar og ég náði að skjótast á götuna sem kennd er við Ísland en eins og kunnugt er viðurkenndu Íslendingar sjálfstæði Litháens fyrst þjóða,“ segir Katrín í færslu sem hún birtir á Facebook-síðu sinni í dag.

Þar fer hún einnig um það sem farið var yfir á fundinum. Þar hafi verið fjallað um innrás Rússa í Úkraínu, stöðuna í stríðinu, aukið samstarf Úkraínu og Atlantshafsbandalagsins og varnaráætlanir bandalagsins. Þá hafi inngöngu Finnlands í bandalagið verið fagnað og gefið vilyrði um að Svíþjóð verði bráðlega fullgildur meðlimur í því. Katrín segir að það megi teljast söguleg tíðindi.

„Fyrir utan öll þessi mál gerði ég afvopnunarmál að sérstöku umtalsefni en þar er staðan grafalvarleg. Kjarnorkuógnin er orðin áþreifanlegri en hún hefur verið lengi og afvopnunarsamningar hafa raknað upp einn af öðrum á undanförnum árum.“

Einnig átti Katrín tvíhliðafundi með Ingridu Šimonytė, forsætisráðherra Litháens og Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands.


Núna er stefnan sett á Helsinki en þar mun Katrín, ásamt öðrum norrænum þjóðarleiðtogum, eiga fund með forseta Bandaríkjanna, Joe Biden.
