Stefán Gauti Stefánsson sagði frá því í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær að hann leigi íbúð á vegum Félagsbústaða sem er ekki með hjólastólaaðgengi. Stefán er með MS sjúkdóminn, lamaður á vinstri hlið líkamans og í hjólastól.
Stefán hefur ítrekað dottið og slasað sig í íbúð sinni vegna skorts á aðgengi og kemst hvorki inn á baðherbergi né eldhús í hjólastólnum og þarf því til að mynda alltaf að skilja stólinn eftir fyrir utan baðherbergisdyrnar þegar hann þarf að nota salernið.
„Félagslegt húsnæði sveitarfélaga þarf að taka mið af því að fatlað og langveikt fólk geti búið þar af því að líklegasti hópurinn til að vera í félagslegu húsnæði er fólk sem er annað hvort með hreyfihömlun eða langveikt,“ segir Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalagsins.
Lagfæra þurfi húsnæðið
Félagslegt húsnæði verði að uppfylla kröfur um algilda hönnun.
„Það þarf að lagfæra gamalt húsnæði ef það er nokkur kostur á að gera það aðgengilega. Þarna hefðu Félagsbústaðir hreinlega átt að lagfæra húsnæðið ef það hefði verið hægt þannig að hann gæti verið þarna. Það er auðvitað alls ekki boðlegt að maðurinn þurfi að skríða inn á klósett,“ segir Þuríður.
Það sé óskiljanlegt að Stefáni hafi verið úthlutuð óaðgengileg íbúð.
„Mér finnst þetta vera algert skilningsleysi og það er auðvitað mjög mikilvægt fyrir fólk í þessari stöðu að það hafi aðgengi og það sé stutt í þjónustu, bæði heilsugæslu og matvörubúð.“
Brýnt sé að Félagsbústaðir og sveitarfélögin bregðist við.
„Þarna held ég að Félagsbústaðir verði bara að gjöra svo vel og skoða það hvort það geti ekki lagfært húsnæðið - stækkað hurðar og gert það aðgengilegt. Svo er það að hann skuli vera settur í húsnæði sem er óaðgengilegt sýna mikið skilningsleysi á hans aðstæðum.“