Innlent

Hand­tekinn fyrir að krota á ný­bygginguna við Al­þingis­húsið

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Maðurinn freistaði þess að stinga lögreglu af en án árangurs.
Maðurinn freistaði þess að stinga lögreglu af en án árangurs.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók mann í gær sem var að krota á nýbygginguna við Alþingishúsið. Þegar lögregla hugðist ræða við manninn tók hann af stað en náðist eftir stutta eftirför.

Kannabisefni fundust á manninum og var hann fluttur á lögreglustöð.

Lögregla handtók einnig konu í miðborginni sem freistaði þess að hlaupa á brott með vörur sem hún hafði tekið ófrjálsri hendi úr verslun einni. Lögreglumenn sem voru að sinna öðru verkefni sáu starfsmann veita konunni eftirför og tókst að stöðva hana. 

Konan var mjög ölvuð og neitaði að gefa upp persónuupplýsingar, auk þess sem hún reyndi að stinga lögreglu af þegar rætt var við hana. Hún var færð á lögreglustöð en sleppt að lokinni skýrslutöku.

Einn var stöðvaður í umferðinni þar sem hann var enn á nagladekkjum og annar fyrir of hraðan akstur, auk þess sem viðkomandi reyndist ekki hafa gild ökuréttindi.

Þá var tilkynnt um þjófnað í Kópavogi og mögulega fíkniefnasölu úr bifreið í sama sveitarfélagi en meintur fíkniefnasali var handtekinn þar sem hann reyndist hafa brotið gegn lögum um útlendinga með því að vera of lengi inni á Schengen-svæðinu.

Annar útlendingur var handtekinn vegna gruns um brot á fíkniefnalöggjöfinni en hann var með á sér nokkuð magn af kannabisi í sölueiningum. Sá reyndist einnig hafa brotið gegn lögum um útlendinga og gat hvorki framvísað persónuskilríkjum né upplýst um tilgang dvalar sinnar hérlendis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×