Enski boltinn

Íhugar að yfirgefa Úlfahjörðina korteri í mót

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Svo gæti farið að Julen Lopetegui hætti sem knattspyrnustjóri Wolves.
Svo gæti farið að Julen Lopetegui hætti sem knattspyrnustjóri Wolves. getty/Jack Thomas

Julen Lopetegui er orðinn verulega pirraður á stöðu mála hjá Wolves og íhugar að hætta hjá félaginu aðeins viku áður en keppni í ensku úrvalsdeildinni hefst.

Lopetegui tók við Wolves í erfiðri stöðu í nóvember en undir hans stjórn vænkaðist hagur liðsins og það bjargaði sér nokkuð örugglega frá falli.

Í sumar hefur Wolves hins vegar selt nokkra af sínum sterkustu leikmönnum, meðal annars sinn besta mann, Rúben Neves til Sádi-Arabíu.

Wolves hefur aðeins samið við Matheus Cunha og Boubacar Traore, sem voru á láni hjá liðinu á síðasta tímabili, og fengið Matt Doherty og markvörðinn Tom King á frjálsri sölu.

Lopetegui er ekki sáttur við stöðuna á Wolves og hefur áhyggjur af því að liðið sé ekki nógu sterkt til að halda sér í ensku úrvalsdeildinni.

Og samkvæmt frétt Mirror er staðan svo slæm að Lopetegui íhugar að hætta hjá Wolves þegar tíu dagar eru í fyrsta leik liðsins í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2023-24. Mánudaginn 14. ágúst mætir Wolves Manchester United í lokaleik 1. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×