Enski boltinn

Ward-Prowse mættur til West Ham

Aron Guðmundsson skrifar
James Ward-Prowse krotar undir samning við West Ham
James Ward-Prowse krotar undir samning við West Ham Mynd: West Ham United

West Ham United hefur gengið frá kaupum á enska miðjumanninum James Ward-Prowse frá Southampton. Frá þessu greinir félagið í yfirlýsingu á samfélagsmiðlum sínum.

Kaupverðið er talið vera í kringum 30 milljónir punda en Ward-Prowse hefur, um margra ára skeið, gegnt lykilhlutverki í liði Southampton og verið fyrirliði liðsins. 

Southampton féll úr ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og þótti það nokkuð ljóst, miðað við þau gæði sem Ward-Prowse býr yfir, að hann myndi færa sig um set. 

Í Ward-Prowse er West Ham að fá virkilega öflugan miðjumann sem býr yfir afbragðs spyrnutækni, leikmann sem hefur mikla reynslu úr ensku úrvalsdeildinni og mun án efa styrkja liðið. 

Félagsskiptin binda enda á 20 ára dvöl Ward-Prowse hjá Southampton. Hann er uppalinn hjá félaginu og spilaði á sínum tíma þar yfir 400 leiki fyrir aðallið félagsins, skoraði 55 mörk og gaf 54 stoðsendingar. 

David Moyes, knattspyrnustjóri West Ham er skiljanlega virkilega ánægður með að Ward-Prowse sé mættur til Lundúna.

„Hann hefur sannað sig á virkilega háu gæðastigi í ensku úrvalsdeildinni undanfarin áratug og tímabil eftir tímabil hefur hann skilað frábærri tölfræði.

Þá eru leiðtogahæfileikar hans augljósir og það er annar stór kostur við hann. Hann gefur okkur aukinn kraft. Við erum virkilega spenntir að hefja samstarfið með honum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×