Í tilkynningu segir að Diljá sé með MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, BA gráðu í frumkvöðlafræðum og skapandi verkefnastjórnun frá KaosPilot-skólanum í Danmörku, diplómu á meistarastigi í sálgæslufræðum frá EHÍ og hafi lagt stund á nám í sálrænum áföllum og ofbeldi við Háskólann á Akureyri.
„Diljá sat í borgarstjórn á árunum 2010 - 2022 og átti þar setu í ráðum og nefndum innan stjórnsýslunnar. Meðfram þeim störfum vann hún í verkefnum tengdum markaðsmálum og viðburða- og verkefnastjórnun.
Árið 2013 stofnaði hún og rak fyrirtækið Þetta reddast ehf. sem sinnti verkefnum í almannatengslum, viðburðarhaldi og markaðsmálum fyrir stóran og fjölbreyttan kúnnahóp. Hún var um árabil verkefnastjóri hjá tónlistarhátíðinni Iceland Airwaves og sá um innri markaðssetningu og var framleiðandi hjá tölvuleikjafyrirtækinu CCP games í nokkur ár.
Einnig sá um stofnun og mótun nýrrar samfélagsmiðladeildar á auglýsingastofunni ENNEMM. Diljá á sem stendur sæti í stjórn RÚV, Bergsins headspace, Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra og Kvennaskólans í Reykjavík,“ segir í tilkynningunni.