„Dagurinn minn er bara búinn að vera krúttlegur. Ég fór í mat til mömmu og pabba í hádeginu og svo var það kaka á eftir,“ segir rithöfundurinn í samtali við Vísi.
„Það var tvennt í boði. Að flytja til Eþíópíu, þar sem árið er 2016 ef ég man þetta rétt, og þeir eru af einhverjum ástæðum sjö árum á eftir, eða bara að suck it up,“ segir Yrsa hlæjandi.
Í næstu viku kemur út kvikmyndin Kuldi, í leikstjórn Erlings Thoroddsen og byggir hún á samnefndri metsölubók Yrsu sem kom út árið 2012. Yrsa kveðst vera spenntari fyrir myndinni en eigin stórafmæli.
„Ég hlakka svo til að sjá hana og það er svo gaman að sjá hvað það eru flottir leikarar í henni. Ég held að Erlingur sé hárréttur maður í þetta. Ég fæ bara að sjá myndina á forsýningunni og get eiginlega ekki beðið.“
Eiginmaður Yrsu, Ólafur Þór Þórhallsson, verður sextugur í febrúar og segist Yrsa ætla að halda upp á sitt eigið stórafmæli með eiginmanninum við það tilefni.
Hvað ætlarðu svo að gera í kvöld?
„Ég veit það ekki, ætli ég skrifi ekki bara,“ segir Yrsa hlæjandi. „Þetta er algjörlega sjálfri mér að kenna, ég er alltaf í einhverri sjálfheldu á sumrin að skrifa. Að byrja fyrr, það er trikkið, en ég virðist ekki geta náð því. Þetta er einhver greindarskortur.“
Er pressan fyrir jólin farin að segja til sín?
„Já, það er venjulega á þessum tíma, svona í ágúst, sem hún fer að segja til sín.“