Í morgun var greint frá því að Sjálfstæðismenn ræddu um mögulega vantrauststillögu á hendur matvælaráðherra komi í ljós að hún hafi brotið stjórnsýslulög er hún frestaði hvalveiðum í sumar.
Er ritari flokksins var síðan spurður hvort Sjálfstæðismenn myndu styðja vantrauststillöguna sagðist hann ekki útiloka það. Þá sagðist formaður Framsóknarflokksins ekki vilja svara svokölluðum „ef“ spurningum um mögulega vantrauststillögu.
Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa stjórnarandstöðuflokkarnir þó ekkert rætt sín á milli um neina vantrauststillögu. Því virðist vera að einu sem hafa rætt um hana sé samstarfsflokkur matvælaráðherra í ríkisstjórn, Sjálfstæðisflokkurinn.
Fólk þurfi forystu
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, segir mál þetta vera broslegt.
„Vandamálið líka fyrir fólkið í landinu er að öll orka ríkisstjórnar Íslands fer í þessar innbyrðis erjur. Á sama tíma hafa stýrivextir tólffaldast frá því að ríkisstjórnin fór aftur af stað fyrir tveimur árum síðan. Fólkið í landinu, fyrirtækin í landinu finna fyrir verðbólgu og vaxtahækkunum. Þetta eru málin sem fólk er að hugsa um. Hvert sem maður fer heyrir maður að umræðan snýst um þetta. Fólk þarf forystu, stefnufestu og sundruð ríkisstjórn getur ekki veitt þeim það,“ segir Þorbjörg.

Kalli meðvitundarleysi stöðugleika
Hún líkir ríkisstjórnarsamstarfinu við óhamingjusöm hjón í fjölbýlishúsi sem taka öll rifrildi úti á svölum.
„Vandamálið fyrir fólk á Íslandi er að þessi ríkisstjórn er svo sundruð að það er ekki bara þannig að hún er ekki hluti af lausninni fyrir fólkið í landinu heldur er hún hluti af þeim vandamálum sem við stöndum frami fyrir því hún liggur eins og pólitískt meðvitundarlaus og kallar það stöðugleika,“ segir Þorbjörg.