„Á næstu vikum munu ráðuneyti og stofnanir vinna að útfærslu aðgerða þannig að sett markmið um afkomu ríkisins fái staðist,“ er svarið sem sex upplýsingafulltrúar ráðuneyta svöruðu við fyrirspurn Vísis um hvort að stöðugildum yrði fækkað í ráðuneytunum og ef svo um hversu mörg.
Einnig er ekki gefið upp hver aðhaldskrafan sé á hvaða stofnun sem heyri undir ráðuneytin. Samkvæmt upplýsingafulltrúunum ríkir trúnaður um þetta fram að framlagningu fjárlagafrumvarps, þann 12. september næstkomandi.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra hefur tilkynnt um 17 milljarða króna aðhald og niðurskurð ríkisins. Þar af á að skera niður um 5 milljarða í launakostnað. Ekki er tilgreint hvar niðurskurðarhnífurinn á að lenda, nema að framlínustarfsfólki verði hlíft. Óvíst er hvort ráðherrarnir skeri niður á skrifstofum sínum, sem hafa bólgnað á undanförnum árum, meðal annars vegna fjölgunar pólitískra aðstoðarmanna.
Ráðuneytin bólgnað
Við talningu í vor kom í ljós að 724 manns starfa nú í ráðuneytunum. Hefur þeim fjölgað töluvert í tíð núverandi ríkisstjórnar og stjórnarinnar þar á undan. Árið 2012 störfuðu 532 í ráðuneytunum. Þetta er fjölgun um 36 prósent.
Mesta fjölgunin hefur verið í utanríkisráðuneytinu á undanförnum árum. Árið 2017 störfuðu þar 105 en nú 141, fjölgun um 36 starfsmenn. Þá hefur einnig verið mikil fjölgun í dómsmálaráðuneytinu, úr 45 í 56 starfsmenn.
Allir með tvo aðstoðarmenn
Fyrir um tólf árum síðan var ráðherrum heimilt að hafa tvo aðstoðarmenn og nú er svo komið að allir ráðherrar velja sér að nýta þá heimild. Bjarni Benediktsson, var um tíma með einn aðstoðarmann en hann bætti öðrum við á þessu ári.
Eftir síðustu kosningar, árið 2021, var ráðuneytunum fjölgað og eru þau nú jafn mörg og þau voru á hrunárunum, það er tólf. Eftir hrun var þeim fækkað úr tólf í níu. Ástæða fjölgunarinnar var talin vera til þess að meðal annars auka vægi Framsóknarflokksins eftir kosningasigur. Hinir flokkarnir hafi ekki viljað gefa eftir ráðherrastóla. Kostnaðurinn við breytinguna hljóp á hundruð milljónum króna.