Íslenski boltinn

ÍA og Fylkir í góðum málum í Lengju­deildunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Viktor Jónsson skoraði eitt marka ÍA.
Viktor Jónsson skoraði eitt marka ÍA. Vísir/Hulda Margrét

ÍA vann 3-2 útisigur á Þór Akureyri í Lengjudeild karla í knattspyrnu. Sigurinn þýðir að Akranes er þremur stigum á undan Aftureldingu þegar tvær umferðir eru eftir af hefðbundinni deildarkeppni í Lengjudeildinni.

Viktor Jónsson kom Skagamönnum yfir í dag og Arnór Smárason tvöfaldaði forystuna. Bjarni Guðjón Brynjólfsson, sem gengur í raðir Vals að tímabilinu loknu, minnkaði muninn áður en Breki Þór Hermannsson kom ÍA í 3-1 skömmu fyrir leikslok. Nikola Kristinn Stojanovic minnkaði muninn í 3-2 en nær komust Þórsarar ekki.

Vestri vann 5-0 stórsigur á Ægi. Benedikt V. Warén skoraði tvennu, Iker Ezquerro, Ibrahima Balde og Mikkel Jakobsen skoruðu eitt hver. Þá vann Leiknir Reykjavík 4-2 útisigur á Njarðvík. Daníel Finns Matthíasson skoraði tvennu fyrir Leikni, Omar Sowe skoraði eitt og eitt markanna var sjálfsmark. Kenneth Hogg og Oumar Diouck skoruðu mörk Njarðvíkur.

Staðan er þannig að ÍA er á toppnum með 43 stig, þremur meira en Afturelding þegar tvær umferðir eru eftir. Vestri er í 4. sæti með 33 stig og Leiknir R. þar fyrir neðan með 32 stig. Þór Ak. er í 7. sæti með 24 stig, Njarðvík er í 10. sæti með 23 stig og Ægir í botnsætinu með 9 stig.

Deildinni lýkur eftir 22 umferðir, liðið í 1. sæti fer upp á meðan liðin í 2. til 5. sæti fara í umspil um sæti í Bestu deildinni og neðstu tvö liðin falla.

Í Lengjudeild kvenna vann Fylkir góðan 4-0 sigur á FHL Guðrún Karitas Sigurðardóttir skoraði tvennu á meðan Marija Radojicic og Mist Funadóttir skoruðu sitthvort markið. 

Þá vann KR 7-0 sigur á Augnabliki. Íris Grétarsdóttir og Jewel Boland skoruðu tvö mörk hvor. Þær Valgerður Gríma Sigurjónsdóttir, Anni Rusanen og Ólöf Freyja Þorvaldsdóttir skoruðu eitt mark hver.

Fylkir er nú einum sigri frá því að tryggja sér sæti í Bestu deild kvenna en liðið er tveimur stigum á undan Gróttu þegar ein umferð er eftir. FHL er í 8. sæti með 17 stig á meðan KR og Augnablik eru fallin. KR með 10 stig og Augnablik fjögur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×