Staðan var markalaus í hálfleik en í seinni hálfleik skoraði Levante fjögur mörk. Hin brasilíska Gabi Nunes gerði þrjú þeirra og nýkrýndi spænski heimsmeistarinn Alba Redondo eitt.
Levante liðið sótti mun meira í leiknum og átti alls fjórtán skot á mark Stjörnunnar. Vörn Garðbæinga hélt þó allan fyrri hálfleikinn en á 48. mínútu kom Gabi Nunes Spánverjunum á bragðið og eftirleikurinn var auðveldur.
Levante hefur á gríðarlega sterku liði að skipa sem endaði í 3. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. Á meðan endaði Stjarnan í 2. sæti Bestu deildarinnar.
Í kvöld kemur það svo í ljós hvort Twente eða Sturm Graz mætir Levante í úrslitaleik um sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar á laugardaginn. Tapliðið mætir Stjörnunni í leik um 3. sætið sama dag.