Innlent

Þjófnaðir, ölvun og ung­menni með hníf

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Verkefni lögreglu í gærkvöldi og nótt voru mörg og margvísleg.
Verkefni lögreglu í gærkvöldi og nótt voru mörg og margvísleg. Vísir/Vilhelm

Verkefni lögreglunna á höfuðborgarsvæðinu voru nokkuð fjölbreytt í gærkvöldi og nótt en nokkur fjöldi þeirra tengdist þjófnuðum og einstaklingum í annarlegu ástandi.

Ein tilkynning barst um þjófnað í verslun og tvær til viðbótar um þjófnað annars vegar úr bifreið og hins vegar á bifreið. Þá var tilkynnt um mögulegan þjófnað og að viðkomandi hefðu farið af vettvangi á bifreið en hún fannst ekki. Einnig var tilkynnt um mann að skemma bifreiðar en sá fannst ekki né sást á bílunum.

Ein tilkynning barst um öldauðan mann á stigagangi en hann var vakinn og honum vísað á brott. Þá barst tilkynning um mann í annarlegu ástandi sem var boðið far heim en afþakkaði og sagðist myndu ganga sjálfur. Stuttu síðar barst hins vegar önnur tilkynning um manninn og þá þáði hann far.

Lögregla var einnig kölluð til þegar einstaklingur sem var óvelkominn á heimili neitaði að fara út og þá kom lögregla einnig að málum eftir að tilkynnt var um mann í annarlegu ástandi að neyta fíkniefna inni á salerni veitingastaðar.

Eitt útkall barst vegna ungmenna með eggvopn en þegar lögregla ræddi við ungmennin framvísaði einn hníf og sagðist nota hann til að tálga spýtur. Lögregla lagði hald á hnífinn og tilkynning verður send á barnavernd vegna málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×